Sport

„Veit ekki af hverju IBA hatar mig“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Imane Khelif kyssir gullmedalíuna sína.
Imane Khelif kyssir gullmedalíuna sína. getty/Aytac Unal

Imane Khelif var í skýjunum eftir að hafa unnið til gullverðlauna í 66 kg flokki í hnefaleikakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í París. Hún segir að allar árásirnar sem hún hefur orðið fyrir geri sigurinn sætari.

Khelif vann kínverska heimsmeistarann Yang Liu í úrslitabardaganum í gær. Allir dómararnir dæmdu Khelif sigur.

Khelif er einn umtalaðasti íþróttamaður Ólympíuleikanna en mikið hefur verið rætt og ritað um þátttöku hennar. Sem kunnugt er meinaði Alþjóðahnefaleikasambandið (IBA) henni að keppa á heimsmeistaramótinu í fyrra og sagði að hún hefði ekki staðist kynjapróf.

IBA kemur hins vegar ekki lengur að hnefaleikakeppninni á Ólympíuleikunum og þar mátti Khelif keppa. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur gagnrýnt ákvörðun IBA að banna Khelif og hinni taívönsku Lin Yu-ting að taka þátt á HM harðlega.

„Ég er kona eins og hver önnur. Ég fæddist sem kona, hef lifað sem kona og keppt sem kona, á því liggur enginn vafi,“ sagði Khelif eftir bardagann í gær.

„Óvinir fylgja velgengni og þeir geta ekki unað mér því að ná árangri. Það gerir sigurinn líka sætari. Allt sem hefur verið sagt um mig á samfélagsmiðlum er siðlaust. Ég vil breyta skoðun fólks.“

Khelif sendi svo IBA tóninn. „Frá 2018 hef ég keppt undir merkjum IBA og þeir vita allt um mig. Ég kannast ekki við þetta IBA. Þeir hata mig og ég veit ekki af hverju. Ég sendi þeim skilaboð í dag að heiður minn er ofar öllu.“

Khelif er fyrsta alsírska konan sem vinnur Ólympíugull í hnefaleikum og fyrsti alsírski boxarinn sem afrekar það síðan Hocine Soltani á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×