Sport

Khelif komin í úr­slit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Imane Khelif fagnar sigrinum á Janjaem Suwannapheng í gær.
Imane Khelif fagnar sigrinum á Janjaem Suwannapheng í gær. getty/Aytac Unal

Alsírska hnefaleikakonan Imane Khelif er komin í úrslit í 66 kg flokki á Ólympíuleikunum í París.

Mikið hefur verið rætt og ritað um Khelif undanfarna daga en ekki eru allir á eitt sáttir með að hún keppi í kvennaflokki. Henni var meinuð þátttaka á HM í fyrra eftir að hún stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur heimsmeistaramótið.

IBA kemur hins vegar ekki lengur að skipulagningu hnefaleikakeppninnar á Ólympíuleikunum og þar má Khelif keppa. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur gagnrýnt ákvörðun IBA að banna Khelif og hinni taívönsku Lin Yu-ting að taka þátt á HM harðlega.

Khelif mætti Janjaem Suwannapheng frá Taílandi í undanúrslitum í 66 kg flokki í gær og fékk mikinn stuðning í Court Philippe Chatrier þar sem bardaginn fór fram. Khelif var sterkari aðilinn í bardaganum og dómararnir voru einróma í ákvörðun sinni.

„Ég er einbeitt. Ég er hér til að standa mig vel og láta drauminn rætast. Ég mun gefa allt sem ég á í úrslitaleikinn,“ sagði Khelif sem dansaði af gleði eftir sigurinn á Suwannapheng. Sú taílenska óskaði mótherja sínum til hamingju með að vera komin í úrslit.

„Ég hafði heyrt fréttirnar um hana en fylgdist ekki grannt með þeim. Hún er kona en hún er mjög sterk. Ég reyndi að nýta hraðann minn en andstæðingur minn var of sterkur,“ sagði Suwannapheng.

Í úrslitunum á föstudaginn mætir Khelif Yang Lin frá Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×