Sport

Khelif segir að hatrinu og níðinu verði að linna: „Þetta getur eyði­lagt fólk“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tilfinningarnar báru Imane Khelif ofurliði eftir að hún sigraði Önnu Luca Hámori á laugardaginn.
Tilfinningarnar báru Imane Khelif ofurliði eftir að hún sigraði Önnu Luca Hámori á laugardaginn. getty/Mehmet Murat Onel

Alsírska hnefaleikakonan Imane Khelif segir að áreitinu sem hún hefur orðið fyrir undanfarna daga verði að linna.

Khelif er komin í undanúrslit í 66 kg flokki á Ólympíuleikunum í París en hún er einn umtalaðasti íþróttamaður þeirra. Sem kunnugt er var Khelif meinuð þátttaka á HM í hnefaleikaleikum í fyrra þar sem hún stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur heimsmeistaramótið.

IBA kemur hins vegar ekki lengur að hnefaleikakeppninni á Ólympíuleikunum og þar má Khelif keppa. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur gagnrýnt ákvörðun IBA að banna Khelif og hinni taívönsku Lin Yu-ting að taka þátt á HM harðlega.

Khelif hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarna daga og í viðtali við SNTV sagðist hún vera komin með nóg af öllu áreitinu.

„Ég sendi öllum að hafa gildi Ólympíuleikanna í hávegi og hætta að níðast á öllu íþróttafólki því það hefur áhrif, mikil áhrif,“ sagði Khelif.

„Þetta getur eyðilagt fólk. Þetta getur drepið hugsanir fólks, anda þess og huga. Þetta getur sundrað fólki. Og þess vegna bið ég það um að láta af níðinu.“

Khelif segist vera í stöðugu sambandi við fjölskyldu sína og að þau hafi áhyggjur af henni. Hún sagði að besta niðurstaðan úr öllu væri ef hún myndi vinna gullverðlaun.

Khelif vildi ekki svara því hvort hún hefði gengist undir önnur próf en lyfjapróf og sagðist ekki vilja tala um það.

Hún sagðist ennfremur vera þakklát Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar, fyrir stuðning hans.

Á morgun mætir Khelif Janjaem Suwannapheng frá Taílandi í undanúrslitum í 66 kg flokki á Ólympíuleikunum. Ef hún vinnur mætir hún annað hvort Chen Nien-chin frá Taílandi eða Yang Liu frá Kína á föstudaginn.


Tengdar fréttir

Carini vill biðja Khelif afsökunar

Ítalska hnefaleikakonan Angela Carini, sem bað um að bardagi sinn á Ólympíuleikunum gegn hinni alsírsku Imane Khelif yrði stöðvaður eftir aðeins 46 sekúndur, vill nú biðja hana afsökunar á framferði sínu.

Hin sem féll á kynjaprófinu á HM vann einnig

Hin taívanska Lin Yu-ting, sem var vísað úr keppni á HM í hnefaleikum í fyrra þar sem hún stóðst ekki kynjapróf, vann fyrsta bardaga sinn á Ólympíuleikunum í París.

Utan vallar: Þegar mektarfólk lætur sig kvennaíþróttir varða

Stórfurðulegt mál frá Ólympíuleikunum í París er skyndilega eitt það umtalaðasta er varðar íþróttir kvenna í áraraðir. Sjaldan hafa samfélagsmiðlar blásið eins mikið upp í kringum einvígi á íþróttavelli sem stóð í 46 sekúndur. Og umræðan að stóru leyti byggð á ranghugmyndum og ósannindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×