Erlent

Minnst níu­tíu mót­mælendur drepnir í Bangla­dess

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Frá óeirðunum í gær.
Frá óeirðunum í gær. Ap

Minnst níutíu mótmælendur voru drepnir í Bangladess í gær, í blóðugum mótmælum sem ekki sér fyrir endann á. Meira en 280 manns hafa nú látið lífið síðan mótmælin brutust út í júlí. 

Kveikjan að mótmælunum var ákvörðun stjórnvalda um að þriðjungur opinberra starfa yrði frátekinn fyrir afkomendur uppgjafarhermanna, en þau þróuðust svo út í almenn mótmæli gegn stjórnvöldum.

Í kjölfar frelsisstríðs Bangladess við Pakistan árið 1971var komið á kvóta, sem kvað á um að þriðjungur allra opinberra starfa yrði frátekinn fyrir afkomendur fyrrverandi hermanna. Þessi kvóti var afnuminn árið 2018, en til stóð að setja hann aftur á laggirnar nú í sumar.

Áformin vöktu mikla reiði, en mikið atvinnuleysi er meðal ungs fólks í landinu. Óeirðir brutust út sem drógu marga til bana.

Lagabreytingin var dregin til baka, og nú er kvótinn afmarkaður við fimm prósent opinberra starfa.

Mótmælin halda áfram þrátt fyrir það, og hafa þróast út í almenn mótmæli gegn stjórnvöldum. Allt er á suðupunkti í landinu. Útgöngubann er í gildi um allt landið eftir klukkan 18 alla daga, og búið er að hefta aðgang íbúa að internetinu.

Sheikh Hasina forsætisráðherra virðist ekki ætla láta undan. „Mótmælendurnir eru ekki námsmenn, heldur hryðjuverkamenn sem vilja grafa undan þjóðaröryggi okkar,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×