Erlent

Full­trúar Fatah og Hamas undir­rita vilja­yfir­lýsingu í Peking

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mahmoud al-Aloul og Mussa Abu Marzuk ásamt Wang Yi, utanríkisráðherra Kína.
Mahmoud al-Aloul og Mussa Abu Marzuk ásamt Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. epa/Pedro Pardo

Fulltrúar Fatah og Hamas, sem hafa fundað í Pekíng í vikunni, undirrituðu yfirlýsingu í gær þar sem fjallað er um bráðabirgðastjórn yfir Gasa og Vesturbakkanum þegar átökum lýkur.

Samkvæmt New York Times er þó ekkert fjallað um útfærslu í yfirlýsingunni né tímasetningar.

Mousa Abu Marzouk, háttsettur embættismaður innan Hamas, sagði um að ræða söguleg tímamót og þá lofaði Mahmoud al-Aloul, sem fór fyrir sendinefn Fatah, stjórnvöld í Kína fyrir að standa með Palestínumönnum.

Tólf aðrar hreyfingar Palestínumanna eru sagðar hafa undirritað yfirlýsinguna.

Sérfræðingar segja um að ræða ákveðna sýndarmennsku af hálfu Kína og það sé ekkert sem bendi til þess að leiðtogum Fatah og Hamas sé alvara með að láta af átökum sín á milli og sameinast um nýja stjórn til að leiða Palestínu.

„Það sem átti sér stað í Kína er ekkert merkilegt,“ segir Jehad Harb, sérfræðingur í málefnum Palestínu.

Fulltrúar Fatah og Hamas hafa áður freistað þess að ná saman og sent frá sér ýmsar yfirlýsingar eftir fundarhöld en án þess að það hafi skilað neinu. 

„Þessar yfirlýsingar eru ekki virði bleksins sem þarf til að undirrita þær,“ segir Abd Al-Rahman Basem al-Masri, 25 ára íbúi Deir al Balah á Gasa. „Við höfum séð þetta áður og glatað allri trú á þeim.“

Israel Katz, utanríkisráðherra Ísrael, fordæmdi hins vegar Mahmoud Abbas, leiðtoga Fatah og forseta Palestínu, fyrir að ganga að samningum við Hamas.

„Í stað þess að hafna hryðjuverkastarfsemi þá tekur Mahmoud Abbas morðingja og nauðgara Hamas í fangið og sýnir sitt rétta andlit,“ sagði Katz í yfirlýsingu. Ekkert verði úr samkomulaginu þar sem Hamas verði tortímt og Abbas muni horfa til Gasa úr fjarlægð.

„Öryggi Ísrael verður algjörlega í höndum Ísrael.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×