Erlent

Á­kærð fyrir að bana barni fyrir hálfri öld

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Lundúnum.
Frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Lundúnum. EPA/ANDY RAIN

Lögreglan í Lundúnum hefur ákært 66 ára gamla konu fyrir að hafa banað fimm ára barni með því að setja það í sjóðandi heitt bað. Barnið, sem hét Andrea Bernard, hlaut alvarleg brunasár og lést á sjúkrahúsi rúmum mánuði síðar.

Konan, sem heitir Janet Nix, er einnig sökuð um að hafa beitt bróður Andreu, þegar hann var fimm til átta ára gamall, ofbeldi en á þessum tíma var Nix sextán til nítján ára gömul.

Lögreglan segir Nix hafa þekkt börnin en ekki liggur fyrir hvernig. Rannsókn vegna dauða Andreu hófst ekki fyrr en árið 2022 eftir að bróðir Andreu, Desmond Bernard, steig fram og sagði frá því að Nix hefði beitt hann ofbeldi.

Hann hélt því einnig fram að Nix hefði þvingað systur hans ofan í sjóðandi heitt bað, svo hún hlaut alvarleg brunasár á um helmingi líkama hennar.

Nix var ákærð fyrir að valda dauða Andreu og fyrir ofeldi gegn barni.

Samkvæmt BBC mætti Nix fyrir dómara í dag, þar sem hún geri lítið annað en að segja nafn hennar, aldur og heimilisfang. Henni var sleppt gegn tryggingu en þurfti að afhenda vegabréf sitt. Réttarhöld eiga að hefjast þann 19. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×