Erlent

Tæki 100 flutningabifreiðar 15 ár að flytja húsarústirnar á brott

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eyðileggingin á Gasa er gríðarleg.
Eyðileggingin á Gasa er gríðarleg. AP

Sameinuðu þjóðirnar segja að það myndi taka hundrað flutningabifreiðar 15 ár að flytja á brott þau næstum 40 milljón tonn af húsarústum sem hafa orðið til í árásum Ísraelsmanna á Gasa.

Aðgerðin myndi kosta á bilinu 500 til 600 milljónir dala.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 137 þúsund bygginar hafi skemmst, meira en helmingur allra bygginga á svæðinu. Af þeim er áætlað að um fjórðungur sé gjöreyðilagður og ein af hverjum tíu verulega skemmd.

Þróunarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNDP) hefur áður gefið út að það muni taka til ársins 2040 hið minnsta að endurbyggja Gasa. Heildarkostnaður við endurreisnina gæti numið allt að 40 milljörðum dala.

Þá er gert ráð fyrir að ástandið hvað varðar heilsu, menntun og verðmætasköpun hafi verið fært um það bil 40 ár aftur í tímann í átökunum. 

Embættismaður Sameinuðu þjóðanna í Gasa sagði í samtali við Guardian í síðustu viku að skemmdir á innviðum væru „geðveikar“. „Í Khan Younis er ekki ein bygging ósnert,“ sagði hann.

Menn hafa einnig varað við því að um tíu prósent af öllum skotfærum springi ekki strax og því kunni hætta að stafa af því að eiga við húsarústir. Það muni torvelda allt hreinsunarstarf enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×