Erlent

„Við viljum heim þar sem ástin sigrar“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Melania Trump segir árásarmanninn hafa verið skrímsli, sem hafi litið svo á að eiginmaður hennar væri pólitísk vél, ekki mennskur.
Melania Trump segir árásarmanninn hafa verið skrímsli, sem hafi litið svo á að eiginmaður hennar væri pólitísk vél, ekki mennskur. Getty

„Ég hugsa nú til ykkar, mínir kæru Bandaríkjamenn. Við höfum alltaf verið sérstakt bandalag. Núna hriktir í grunnstoðum landsins okkar, en hugrekkið og skynsemin verða að rísa og sameina okkur á ný.“ Þetta eru upphafsorð yfirlýsingar sem Melania Trump gaf frá sér í dag, í kjölfar skotárásarinnar á eiginmann hennar Donald Trump. Þar sagði hún að mikilvægt væri að sýna fólki virðingu og að ástin væri ofar öllu.

„Þegar ég horfði á skotárásina á eiginmann minn, áttaði ég mig á því að líf mitt og Barrons, væri á barmi þess að umturnast. Ég er þakklát fyrir hugrökku leyniþjónustumennina og lögregluþjónana sem stefndu lífi sínu í hættu til þess að vernda eiginmann minn,“ segir Melania. 

Þá vottaði hún fjölskyldum þeirra sem létu lífið og slösuðust samúð sína.

Árásarmaðurinn „skrímsli“

Melania segir að mannlegu hliðar Trumps, hafi verið hafðar að engu. Hún sagði að árásarmaðurinn væri „skrímsli sem leit svo á að eiginmaður minn væri ómennsk pólitísk vél.“

Mikilvægt sé að muna að ólíkar pólitískar skoðanir og pólitískir leikir, eru óæðri ástinni. „Við erum öll mennsk, og í grundvallaratriðum viljum við hjálpa hver öðru. 

Rísum ofar hatrinu

„Nú er nýr dagur, við skulum sameinast aftur á ný. Þennan morgun skulum við rísa upp fyrir hatrið, biturleikann og einföldu hugmyndirnar sem eru á bak við ofbeldi,“ segir Melania.

„Ég hugsa til ykkar, mínir kæru Bandaríkjamennn. Nýir tímar blasa við okkur. Til ykkar sem hafa sýnt okkur stuðning, segi ég takk. Ég þakka þeim sem hafa haft sig yfir pólitískan ágreining okkar á milli, og munað eftir því að allir stjórnmálamenn eru karl eða kona með ástkæra fjölskyldu,“ segir Malania Trump.

Færslan í heild sinni er á X.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×