Sport

„Leiðin­legt að kveðja liðið sem maður hefur verið í frá því maður var fjögurra ára“

Andri Már Eggertsson skrifar
Sigdís Eva Bárðardóttir, leikmaður Víkings, er á leiðinni í atvinnumennskuna
Sigdís Eva Bárðardóttir, leikmaður Víkings, er á leiðinni í atvinnumennskuna Vísir/Anton Brink

Víkingur tapaði gegn Val á heimavelli 0-2. Þetta var síðasti leikur Sigdísar Evu Bárðardóttur sem er á leiðinni í Norrköping.

„Frammistaðan var ágæt. Valur er með gott lið en við höfum sýnt að við getum gert betur en þetta. Við unnum Breiðablik sem Valur tapaði fyrir,“ sagði Sigdís Eva í samtali við Vísi eftir leik.

Bæði mörk Vals komu í fyrri hálfleik og hvorugu liðinu tókst að skora í síðari hálfleik. Að mati Sigdísar skapaði Víkingur nógu mikið af færum til þess að gera þriðja mark leiksins sem hefði hrist upp í hlutunum.

„Alveg klárlega hefðum við getað skorað eitt til tvö mörk en þetta datt ekki með okkur í dag.“

 

Þetta var síðasti leikur Sigdísar fyrir Víking þar sem hún er á leiðinni í atvinnumennskuna og er búin að semja við sænska liðið Norrköping.

„Það eru miklar tilfinningar. Þetta hefur verið draumur frá því að maður var lítil krakki en það er leiðinlegt að kveðja liðið sem maður hefur verið í frá því maður var fjögurra ára.“

„Maður kemur kannski hérna þegar maður verður eldri en þetta félag á alltaf stað í mínu hjarta. Þetta verður krefjandi verkefni úti en ég er tilbúin í það,“ sagði Sigdís Eva að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×