Erlent

Umbótasinni bar sigur úr býtum í Íran

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Iran Holds Presidential Election
Getty/Majid Saeedi

Umbótasinninn Massoud Pezeshkian hefur verið kjörinn nýr forseti Írans og bar þar með sigur úr býtum gegn íhaldssömum keppinaut sínum, Saeed Jalili, í annarri umferð forsetakosninga þar í landi. 

Pezeshkian tryggði sér 53,3 prósent atkvæða á meðan Jalili endaði með 44,3 prósent þegar búið var að telja um 30 milljón atkvæði. Þurfti að kalla til annarrar umferðar í forsetakosningunum eftir að enginn frambjóðandi náði að tryggja sér meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni sem fór fram þann 28. júní.

Haldið var til forsetakosninga í Íran eftir að fyrrverandi forseti landsins, Ebrahim Raisi, lést í þyrluslysi í maí ásamt sjö öðrum. Raisi hafði þá gegnt embættinu frá árinu 2021.

Áður en endanlegar niðurstöður voru tilkynntar af innanríkisráðuneyti Írans voru stuðningsmenn Pezeshkian komnir út á götur í Teheran og fjölda annarra borga til að fagna.

Pezeshkian er 71 árs og starfaði áður sem hjartaskurðlæknir. Hann hefur áður setið á þingi í Íran og gagnrýndi þar siðferðislögreglu Írans harðlega. Hann hefur kallað eftir sameiningu og ætlar að enda einangrun Írans frá heiminum. 


Tengdar fréttir

Raisi sigurvegari í Íran

Ebrahim Raisi bar sigur úr býtum í forsetakosningum í Íran. Níutíu prósent atkvæða hafa verið talin og Raisi hefur hlotið rúmlega helming þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×