Fótbolti

Rooney út­skýrir af hverju hann hefur á­hyggjur af Bellingham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney vonar að Jude Bellingham láti slælega frammistöðu enska landsliðsins ekki fara of mikið í taugarnar á sér.
Wayne Rooney vonar að Jude Bellingham láti slælega frammistöðu enska landsliðsins ekki fara of mikið í taugarnar á sér. getty/Alex Grimm

Ýmsir hafa haft áhyggjur af frammistöðu Judes Bellingham á Evrópumótinu í Þýskalandi. Meðal þeirra er Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins.

Bellingham spilaði mjög vel í fyrri hálfleiknum í fyrsta leik Englands gegn Serbíu og skoraði sigurmark liðsins. Síðan hefur hann ekki náð sér á strik og virkað pirraður, eitthvað sem Rooney tók eftir í markalausa jafnteflinu gegn Slóveníu.

„Þrisvar eða fjórum sinnum í fyrri hálfleiknum gat hann ekki leynt óánægju sinni. Hann horfði í kringum sig og fórnaði höndum. Svoleiðis líkamstjáning sendir skilaboð til stuðningsmanna, liðsfélaga og þjálfarans,“ skrifaði Rooney í pistli í The Times.

„Ég vona bara að hann missi ekki stjórn á sér svo hann geri ekki eitthvað heimskulegt, fái rautt spjald eða meiðist. Gegn Slóveníu virtist hann nálægt því. Einu sinni hljóp hann í gegnum vörnina en sendingin var of föst og hann renndi sér á hnjánum og klessti næstum því á auglýsingaskilti. Pirringur. Þú getur meitt þig á einhverjum svona kjánaskap.“

Rooney benti þó á að það mætti ekki gleymast að Bellingham er aðeins 21 árs. Þrátt fyrir það er hann á sínu þriðju stórmóti með enska landsliðinu.

England mætir Slóvakíu í sextán liða úrslitum í Gelsenkirchen á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×