Fótbolti

Portúgalar syrgja mikla goð­sögn á miðju Evrópu­móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Fernandes var mikil goðsögn og mjög vinsæll í heimalandi sínu. Flest stóru félögin í Portúgal hafa minnst hans í dag.
Manuel Fernandes var mikil goðsögn og mjög vinsæll í heimalandi sínu. Flest stóru félögin í Portúgal hafa minnst hans í dag. Getty/Gualter Fatia/

Cristiano Ronaldo og Jose Mourinho eru meðal þeirra sem minnast portúgölsku fótboltagoðsagnarinnar Manuel Fernandes sem lést í gær. Portúgalska þjóðin syrgir þessa miklu goðsögn en fram undan er leikur á móti Slóveníu í sextán liða úrslitum EM.

Cristiano Ronaldo minntist hans á miðlum sínum.@cristiano

Manuel Fernandes varð 73 ára gamall en hann var mikil hetja hjá uppeldisfélagi Ronaldo, Sporting Lissabon. Hann hafði verið að berjast við erfið veikindi og hafði nýverið gengist undir aðgerð þar sem æxli var fjarlægt.

„Frábær maður, stórkostlegur leikmaður og sannur vinur,“ skrifaði Jose Mourinho á Instagram. Mourinho þekkti Fernandes vel. Hann var túlkur hans þegar Manuel Fernandes var aðstoðarmaður Bobby Robson hjá Sporting.

„Hvíldu í friði,“ skrifaði Cristiano Ronaldo undir teiknaða mynd af Fernandes. Ronaldo lék með Sporting frá 1997 til 2003 þar af eitt tímabil með aðalliðinu.

Fernandes spilaði lengi með Sporting og var einn markahæsti leikmaður Portúgala á áttunda og níunda áratugnum. Hann skoraði 386 mörk í öllum keppnum með Sporting og varð tvisvar sinnum portúgalskur meistari með félaginu, 1980 og 1982.

Alls var Fernandes með 241 mark í 485 leikjum í efstu deild í Portúgal en hann spilaði í deildinni í nítján tímabil. Hann spilaði líka 31 landsleik fyrir Portúgal frá 1975 til 1987 og skoraði í þeim sjö mörk.

Portúgalska landsliðið minntist hans með einnar mínútu þögn á æfingu liðsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×