Körfubolti

Kín­verski risinn sem enginn getur stöðvað

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ziyu er engin smásmíði.
Ziyu er engin smásmíði. vísir/getty

Sautján ára gömul stúlka frá Kína er að stela senunni í alþjóðaboltanum í sumar og það svo sannarlega ekki að ástæðulausu.

Þessi stúlka heitir Zhang Ziyu er heilir 220 sentimetrar á hæð. Hún er að þreyta frumraun sína með kínverska U18 ára landsliðinu og það er ótrúlegt að horfa á hana spila.

Hún gnæfir yfir andstæðinga sína og í raun líta andstæðingarnir út eins og smákrakkar við hliðina á henni. Hún getur því gert hvað sem hún vill við boltann því enginn andstæðingur á möguleika í boltann í hennar hæð. Hún er þess utan með ljómandi gott skot.

Það er nánast ómögulegt verk fyrir andstæðinga Ziyu að stöðva hana.vísir/getty

Í fyrsta leik sínum á mótinu setti hún niður öll níu skotin sín. Endaði með 19 stig á aðeins 13 mínútum. Kína vann þá Indónesíu 109-50.

Næsti leikur var gegn Nýja-Sjálandi og þá skoraði hún 36 stig, tók 13 fráköst og varði 4 skot. Kína vann 90-68 og mætir svo Japan í dag.

Kínverjar eru stoltir af sinni nýjustu stjörnu og kalla hana kvenkyns Yao Ming en Ming var stórstjarna í NBA-deildinni á sínum tíma. Þess verður örugglega ekki langt að bíða að við sjáum Ziyu í WNBA-deildinni.

Hér að neðan má sjá hana spila á Asíumótinu sem er í fullum gangi. Sjón er sögu ríkari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×