Fótbolti

Ronaldo rétt slapp við spark frá á­horf­anda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo var verulega pirraður í leiknum gegn Georgíu.
Cristiano Ronaldo var verulega pirraður í leiknum gegn Georgíu. getty/Emin Sansar

Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins, var nálægt því að fá spark í andlitið frá áhorfanda eftir leikinn gegn Georgíu á EM í gær.

Portúgalir töpuðu leiknum, 2-0, en unnu samt F-riðilinn. Þeir mæta Slóvenum í sextán liða úrslitum.

Ronaldo var í byrjunarliði Portúgals en var tekinn af velli á 65. mínútu. Þegar hann gekk af velli á Veltins-Arena í Gelsenkirchen var hann nálægt því að fá spark í andlitið.

Æstur áhorfandi stökk nefnilega úr stúkunni og í átt að Ronaldo. Öryggisvörður sem fylgdi portúgölsku stórstjörnunni af velli var snöggur að bregðast við og steig fyrir hann svo áhorfandinn kæmist ekki að honum.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áhorfendur trufla Ronaldo á EM. Í leiknum gegn Tyrklandi á laugardaginn komst áhorfandi inn á völlinn og hljóp í átt að Ronaldo sem ýtti honum í burtu. Eftir leikinn reyndu fleiri áhorfendur að komast nálægt Portúgalanum.

Ronaldo hefur ekki enn skorað á EM en lagði upp mark fyrir Bruno Fernandes í 0-3 sigrinum á Tyrkjum. Ronaldo er leikja-, marka- og stoðsendingahæsti leikmaður í sögu EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×