Frakkar misstu af toppsætinu þrátt fyrir fyrsta EM-mark Mbappé

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé skora'i sitt fyrsta mark á EM í dag.
Kylian Mbappé skora'i sitt fyrsta mark á EM í dag. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Frakkland og Pólland gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í lokaumferð D-riðils á EM í fótbolta í dag. Bæði mörk leiksins voru skoruð af vítapunktinum.

Frakkar voru í góðum málum fyrir lokaumferð riðlakeppninnar með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina, en Pólverjar voru enn án stiga og svo gott sem úr leik.

Eftir markalausan fyrri hálfleik náðu Frakkar að brjóta ísinn á 56. mínútu eftir að Jakub Kiwior gerðist brotlegur innan vítateigs. Stórstjarnan Kylian Mbappé, sem hafði aldrei skorað mark á EM, steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Pólsku leikmennirnir voru þó ekki búnir að játa sig sigraða. Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum féll Karol Swiderski innan vítateigs Frakka og eftir langa VAR-skoðun var vítaspyrna niðurstaðan.

Robert Lewandowski fór á punktinn fyrir pólska liðið, en Mike Maignan varði spyrnuna. Maignan var þó kominn af marklínunni þegar spyrnan var tekin og því þurfti að endurtaka hana.

Í þetta skipti brást markamaskínunni Lewandowski ekki bogalistinn og staðan var orðin jöfn, 1-1.

Hvorugu liðinu tókst þó að finna sigurmarkið og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli. Þar sem Austurríkismenn unnu óvæntan sigur gegn Hollendingum á sama tíma þurfa Frakkar að gera sér annað sæti riðilsins að góðu, en Pólverjar enda í neðsta sæti með aðeins eitt stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira