Sport

Dró fram Yu-Gi-Oh!-spil og tryggði sig inn á Ólympíu­leika

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lyles og lukkugripurinn.
Lyles og lukkugripurinn. Christian Petersen/Getty Images

Noah Lyles, ríkjandi heimsmeistari í 100 metra hlaupi karla, tryggði sig um helgina inn á Ólympíuleikana sem fram fara í París síðar í sumar. Virðist lukkugripur hans hafa hjálpað honum að þessu sinni.

Lyles tók ekki þátt í 100 metra hlaupinu á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hann jafnaði hins vegar sinn besta tíma um helgina þegar hann hljóp 100 metrana á 9,83 sekúndum. Um leið tryggði hann sér þátttökurétt í 100 metra hlaupinu í París.

„Fyrir þremur árum endaði ég næst neðstur en í ár mætti ég og vann. Þetta er allt hluti af áætluninni, það hefur ekkert breyst. Þetta gæti komið öllum öðrum á óvart en þegar þú veist hvert endamarkið er þá veistu hvert endamarkið er,“ sagði Lyles eftir að Ólympíusætið var í höfn.

Segja má að hann hafi ekki verið einn í hlaupinu því hann tók lukkugrip sinn með sér. Um er að ræða Yu-Gi-Oh!-spil. Er um að ræða karakterinn „Exodia the Forbidden One“ og var spilið lengi vel gríðarlega sjaldgæft.

Lyles nældi í brons í 200 metra hlaupinu í Tókýó og segir það hvetja sig áfram.

„Ef ekki væri þau verðlaun þá hefði ég ekki þennan vilja og þessa þrá. Ég hefði ekki verið búinn að áorka því sem ég hef áorkað undanfarið. Nú horfum við opnum augum fram veginn því allt getur gerst,“ sagði Lyles að lokum.

Ólympíuleikarnir hefjast 26. júlí og standa til 11 ágúst. Þann 4. ágúst verður keppt í 100 metra hlaupi karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×