Fótbolti

Þjálfari Skota æfur: „Af hverju er dómarinn ekki evrópskur?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Clarke tókst ekki að koma Skotum í útsláttarkeppni á stótmóti, ekki frekar en forverum hans í starfi landsliðsþjálfara.
Steve Clarke tókst ekki að koma Skotum í útsláttarkeppni á stótmóti, ekki frekar en forverum hans í starfi landsliðsþjálfara. getty/Joe Prior

Steve Clarke, landsliðsþjálfari Skotlands í fótbolta, var brjálaður yfir því að Skotar hafi ekki fengið vítaspyrnu í leiknum gegn Ungverjum á EM í Þýskalandi í gær.

Skotland tapaði leiknum, 1-0, og er úr leik á Evrópumótinu. Skotar fengu aðeins eitt stig í A-riðli.

Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum í Stuttgart í gær féll Stuart Armstrong í vítateig Ungverja eftir baráttu við Willi Orban. Argentínski dómarinn Facundo Tello dæmdi hins vegar ekki neitt og VAR-dómarinn Alejandro Hernández greip heldur ekki inn í.

Clarke var afar ósáttur þegar hann mætti í viðtal eftir leikinn en honum fannst sínir menn sviknir um vítaspyrnu.

„Stærsta atriðið í þessum leik er vítið. Af hverju var það ekki dæmt? Ég þarf svar. Ég þarf að vita af hverju þetta er ekki víti,“ sagði Clarke.

„Ég skil ekki hvernig VAR getur skoðað þetta og sagt að þetta sé ekki víti. Ég er með orð fyrir það en mér er annt um peningana mína.“

Clarke sagði að það hefði ekkert upp á sig að ræða við dómarann.

„Hver er tilgangurinn? Hann er frá Argentínu. Af hverju er dómarinn ekki evrópskur? Ég skil ekki af hverju hann er hér en ekki að dæma í heimalandinu. Það er bara mín skoðun.“

Skotar hafa aldrei komist upp úr riðlinum á þeim tólf stórmótum sem liðið hefur komist á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×