Fótbolti

Mbappé skoraði tvö mörk með grímuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé lét grímuna ekki stoppa sig en hann var reyndar að spila á móti 21 árs liði.
Kylian Mbappé lét grímuna ekki stoppa sig en hann var reyndar að spila á móti 21 árs liði. Getty/ Jens Schlueter

Franski framherjinn Kylian Mbappé tók ekki þátt í leik Frakklands og Hollands í Evrópukeppninni á föstudaginn en hann fór aftur á móti á kostum í æfingarleik daginn eftir.

Mbappé nefbrotnaði í fyrsta leiknum á EM sem var á móti Austurríki. Óvissa var með þátttöku hans í framhaldinu en nú lítur út fyrir að hann sé orðinn leikfær.

Hann spilaði æfingarleikinn með nýju grímuna í gær og skoraði tvö mörk auk þess að leggja upp önnur tvö til viðbótar.

Leiknum var skipt niður í tvo þrjátíu mínútna hálfleiki og var hann spilaður á móti 21 árs liði Paderborn.

Leikurinn fór fram fyrir luktum dyrum en fréttir láku út eftir flotta frammistöðu Mbappé.

Frakkar mæta næst Póllandi á þriðjudaginn í lokaleik sínum í riðlinum. Frakkar eru með fjögur stig en Pólverjar eru stigalausir og úr leik.

Hollendingar eru líka með fjögur stig en Austurríkismenn eru með þrjú stig.

Frakkar eru því í góðri stöðu en ekki þó öruggir áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×