Upp­gjör: FH - Fylkir 3-1 | FH-ingar vöknuðu til lífsins á loka­mínútunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH-ingar unnu sterkan sigur í kvöld.
FH-ingar unnu sterkan sigur í kvöld. Vísir/Diego

FH vann sterkan 3-1 sigur er liðið tók á móti Fylki í 11. umferð Bestu-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikur bauð ekki beint upp á mikla skemmtun og bæði lið áttu í erfiðleikum með að tengja saman margar sendingar.

FH-ingar fengu þó fyrsta alvöru færi leiksins þegar boltinn barst inn á teig á Úlf Ágúst Björnsson á 11. mínútu sem tók hann niður áður en Sigurður Bjartur Hallsson hrifsaði hann af liðsfélaga sínum og kláraði af öryggi í fjærhornið.

Fylkismenn náðu einnig að skapa sér tvö ágætis færi í fyrri hálfleik. Það fyrra kom á 14. mínútu þegar Emil Ásmundsson setti boltann framhjá eftir skógarhlaup Sindra Kristins Ólafssonar í marki FH og það seinna kom á 41. mínútu þegar boltinn datt fyrir Nikulás Val Gunnarsson inni á teig, en áðurnefndur Sindri varði vel.

Fleiri urðu mörkin því ekki fyrir hlé og staðan í hálfleik 1-0, FH í vil.

Síðari hálfleikur bauð svo lengi vel upp á það sama og fyrri hálfleikur. Lokasendingar voru ekki að ganga hjá liðunum og þar af leiðandi létu færin á sér standa.

Eftir því sem leið á fóru færin þó að láta sjá sig. Fylkismenn hefðu hæglega getað jafnað metin á 65. mínútu þegar Halldór Jón Sigurður Þórðarson fékk hörkufæri, en Sindri varði vel í markinu.

Gestunum tókst þó loks að jafna á 72. mínútu þegar þrumufleygur Arnórs Breka Ásþórssonar fann fjærhornið og staðan orðin 1-1.

Heimamenn voru þó ekki lengi að svara því aðeins fjórum mínútum síðar var varamaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen búinn að endurheimta forystu FH-inga með góðu marki eftir stuttan darraðardans inni á teignum.

FH-ingar gerðu svo endanlega út um leikinn á 85. mínútu þegar boltinn barst á Kjartan Kára Halldórsson inni á markteignum þar sem hann kláraði vel. Niðurstaðan því 3-1 sigur FH sem nú er með 17 stig í fimmta sæti deildarinnar, en Fylkismenn sitja enn í næstneðsta sæti með sjö stig.

Atvik leiksins

Ætli það sé ekki hægt að velja jöfnunarmark Fylkis sem atvik leiksins. Lengst framan af leik áttu FH-ingar í miklum vandræðum með að skapa sér opin marktækifæri, en þetta gullfallega mark Arnórs Breka virtist kveikja vel í heimamönnum. 

Stjörnur og skúrkar

Sindri Kristinn Ólafsson stóð sína vakt vel í marki FH í kvöld og á stóran þátt í því að heimamenn fögnuðu sigri. Góð varsla í fyrri hálfleik og tvöföld varsla í síðari hálfleik og Sindri getur verið sáttur við sitt.

Þá átti Kjartan Kári Halldórsson einnig virkilega góðan leik fyrir FH og skoraði þriðja mark liðsins.

Skúrkarnir verða þó að teljast Fylkismennirnir sem nýttu ekki færin sín í leiknum. Nikulás Val Gunnarsson fékk hörkufæri í fyrri hálfleik sem Sindri varði og sömu sögu er að segja af Halldóri Jóni Sigurði Þórðarsyni í síðari hálfleik.

Dómarinn

Erlendur Eiríksson og hans teymi höfðu góð tök á leik kvöldsins. Reyndar var lítið að frétta lengst framan af leik, en þegar þurfti að grípa inn í gerðu dómarar kvöldsins það vel.

Umgjörð og stemning

Ekkert hægt að setja út á umgjörð FH-inga í kvöld. Það var ágætlega mætt á völlinn í kvöld og veðrið lék við áhorfendur, þrátt fyrir smá kulda. Stemningin var svo eftir gæðum leiksins og jókst eftir því sem líða fór á.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira