Erlent

Fær ekki frest og hefur af­plánun 1. júlí

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bannon var dæmdur í fangelsi eftir að hann neitaði að mæta fyrir þingnefnd og afhenda umbeðin gögn.
Bannon var dæmdur í fangelsi eftir að hann neitaði að mæta fyrir þingnefnd og afhenda umbeðin gögn. Getty/Andrew Harnik

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur hafnað umleitan Steve Bannon, sem eitt sinn var helsti bandamaður Donald Trump, um frest á afplánun.

Bannon á að gefa sig fram við fangelsismálayfirvöld 1. júlí næstkomandi eftir að hann var dæmdur fyrir að sýna þinginu vanvirðingu þegar hann neitaði að mæta fyrir þingnefnd og afhenda umbeðin gögn.

Rannsókn þingnefndarinnar snéri að tilraunum Trump til að snúa niðurstöðum forsetakosninganna 2020.

Bannon var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi en áfrýjaði dómnum.

Þriggja manna áfrýjunardómstóll í Washington D.C. staðfesti niðurstöðu undirréttar og í síðasta mánuði staðfesti dómarinn Carl Nichols, sem var skipaður af Trump, beiðni saksóknara um að Bannon yrði gert að hefja afplánun.

Bannon áfrýjaði ákvörðun Nichols til áfrýjunardómstólsins og freistaði þess að fá um frjálst höfuð að strjúka á meðan málið færi sína leið í dómskerfinu, mögulega alla leið inn á borð Hæstaréttar.

Áfrýjunardómstóllinn komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að ekkert við mál Bannon réttlæti það að honum yrði veitt undanþága.

Þess má geta að dómurinn var klofinn í afstöðu sinni; tveir dómaranna, annar skipaður af Joe Biden og hinn af Barack Obama, vildu senda Bannon í steininn en sá þriðji, skipaður af Trump, sagði að hann ætti að ganga laus þar til endanleg niðurstaða væri komin í málið.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×