Erlent

Assange sagður játa sök til að ganga laus

Jón Þór Stefánsson skrifar
Julian Assange er stofnandi WikiLeaks
Julian Assange er stofnandi WikiLeaks Getty

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, er sagður munu játa sök í sakamáli sem bandarísk stjórnvöld höfða á hendur honum. Það sé hluti af dómsátt sem dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna bjóði honum.

CBS og BBC greina frá þessu, en dómsáttin er sögð verða til þess að Assange muni geta gangið laus. Hann muni fara til Ástralíu, heimalands síns.

Samkvæmt miðlunum mun Assange gera það í dómsal á Norður-Maróinaeyjum, sem eru undir stjórn Bandaríkjanna. Síðastliðin fimm ár hefur Assange dvalið í fangelsi í Bretlandi og reynt að forðast það að verða framseldur til Bandaríkjanna.

Assange er ákærður fyrir að afla sér og dreifa leynilegum upplýsingum um stríð Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Bandarísk stjórnvöld vilja meina að háttsemin hafi komið fólki í lífshættu.

Samkvæmt CBS mun tíminn sem Assange eyddi bak við lás og slá í Bretlandi verða til þess að hann verji engum tíma í bandarísku varðhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×