Erlent

Ekki vön því að tala um eigin­mann sinn sem frjálsan mann

Árni Sæberg skrifar
Stella Assange á blaðamannafundi í Lundúnum í maí, þegar greint var frá því að eiginmaður hennar hefði hlotið áfrýjunarleyfi. Fyrir aftan hana er Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Stella Assange á blaðamannafundi í Lundúnum í maí, þegar greint var frá því að eiginmaður hennar hefði hlotið áfrýjunarleyfi. Fyrir aftan hana er Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. Peter Nicholls/Getty

Stella Assange, eiginkona Julians Assange, segist í skýjunum með það eiginmaður hennar hafi gert dómsátt við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Í samtali við breska ríkisútvarpið segist hún ekki vön því að tala um eiginmann sinn frjálsan í nútíð frekar en framtíð.

Hún segir að unnið hafi verið þrotlaust að því að ná samningum síðustu daga og það hafi ekki verið fyrr en á síðasta sólarhring sem hún leyfði sér að trúa því að eiginmaður hennar yrði látinn laus.

Wikileaks greindi frá því í morgun á samfélagsmiðlinum X að Assange hefði þegar yfirgefið Bretland.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að Assange muni mæta fyrir dómara á Norður-Maróinaeyjum, sem eru undir stjórn Bandaríkjanna. Síðastliðin fimm ár hefur Assange dvalið í fangelsi í Bretlandi og reynt að forðast það að verða framseldur til Bandaríkjanna. Hann mun hafa farið fram á það að mæta fyrir dómara annars staðar en á meginlandi Bandaríkjanna.

Assange er ákærður fyrir að afla sér og dreifa leynilegum upplýsingum um stríð Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Bandarísk stjórnvöld vilja meina að háttsemin hafi komið fólki í lífshættu.

Dómsáttin felur það í sér að sá tími sem Assange varði í fangelsi í Bretlandi verði dreginn frá þeirri refsingu sem hann hefði verið látinn sæta vegna brotsins, og því muni hann ekki þurfa að sitja inni.

„Það mikilvægasta í dómsáttinni er að hún tekur mið af þegar afplánuðum tíma, ef hann skrifaði undir hana yrði honum sleppt. Hann verður frjáls um leið og dómari hefur undirritað hana, sem verður einhvern tímann á morgun,“ er haft eftir Stellu Assange.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×