Fótbolti

Óskar Hrafn ekki hrifinn af Sout­hgate: „Eins og hundrað ára gamall prófessor“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson er ekki hrifinn af Gareth Southgate, þjálfara enska landsliðsins.
Óskar Hrafn Þorvaldsson er ekki hrifinn af Gareth Southgate, þjálfara enska landsliðsins. Getty/Richard Pelham & Hulda Margrét

Gareth Southgate, þjálfari enska fótboltalandsliðsins, var harðlega gagnrýndur eftir frammistöðu enska liðsins á móti Dönum á EM í gær. Ekki bara hjá enskum fjölmiðlum heldur einnig af Óskari Hrafni Þorvaldssyni.

Óskar Hrafn, fyrrum þjálfari Breiðabliks og Haugesund, fór ekkert í felur með það að hann var ekki hrifinn af því sem Southgate og hann menn buðu upp á í 1-1 jafntefli á móti Dönum í gær.

Bara til að sparka í rassgatið á Gareth Soutgate

„Ef það voru einhverjir sem áttu að vinna þennan leik þá voru það klárlega Danir og þó það væri bara til að sparka í rassgatið á Gareth Soutgate,“ sagði Óskar Hrafn í EM-stofunni á RÚV.

„Hvað átti Southgate að gera? Farðu úr að ofan eða eitthvað. Gerðu eitthvað. Sýndu að þú sért með lífsmarki,“ sagði Óskar.

Enska liðið var líflaust og bitlaust inn á vellinum. Liðið er uppfullt af stórstjörnum en þeir finna ekki taktinn.

Engin ástríða

„Hann er eins og hundrað ára gamall prófessor í einhverjum háskóla og það er ekkert. Það er engin ástríða,“ sagði Óskar.

„Liðið hans er eiginlega jafnleiðinlegt og hann lítur út fyrir að vera. Það er eins og þeim leiðist þarna. Það er eins og einhver sé að pína þá til að vera þarna,“ sagði Óskar.

„Ég þetta bara ekki. Ég næ þessu ekki. Ég var svona: Sniðugir á móti Serbíu og héldu boltanum. Voru með stjórn á leiknum. Ég kaupi þessa áætlun hans í einum leik en svo verður því bara að hætta þessu bulli. Hættu þessari varkárni,“ sagði Óskar eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×