Innlent

Stjórnar­flokkarnir séu farnir að stilla sér upp fyrir kosninga­bar­áttu

Rafn Ágúst Ragnarsson og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Eiríkur Bergmann rýndi í vendingar dagsins á Alþingi í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Eiríkur Bergmann rýndi í vendingar dagsins á Alþingi í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Arnar

Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir að, þó að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hafi varist vantrausti með talsverðum meirihluta, varpi atkvæðagreiðslan enn skærara ljósi á þá úlfúð og óeiningu sem ríkir í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Stjórnarflokkarnir séu jafnframt hættir að vinna saman og farnir að stilla sér upp fyrir komandi kosningabaráttu.

Eiríkur segir fleyginn í ríkisstjórnarsamstarfinu kristallast í ummælum Jóns Gunnarssonar um vanhæfi Vinstri grænna. Í pontu Alþingis í dag gerði Jón grein fyrir atkvæði sínu, eða því að hann hafi setið hjá, og sagði að Vinstri græn ættu „takmarkað erindi á Alþingi Íslendinga.“

„Með þessari tillögu tókst nú ekkert að reka neinn frekari fleyg í samstarfið en fyrir var. En þetta er bara mjög fleygað samstarf fyrir og þetta sýnir það. Það tókst auðvitað ekki að fá fleiri í andstöðuhópinn,“ segir Eiríkur.

Er ríkisstjórnin veikari en hún var áður?

„Hún var bara svo veik og hún er áfram veik. Hvort að það hafi breyst eitthvað gríðarlega mikið í þeim efnum er ég ekkert viss um. Allir þessir þrír stjórnarflokkar eru bara að bíða eftir kosningum, hvenær svo sem þær verða, og eru byrjaðir að stilla sér upp í nýja kosningabaráttu og eru hættir að vinna saman eins og hefðbundið á að vera með ríkisstjórnir,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×