Erlent

Segir blekkingu að halda því fram að hægt sé að tor­tíma Hamas

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Daniel Hagari hefur verið andlit Ísraelshers frá því að aðgerðir hófust í kjölfar árása Hamas 7. október sl.
Daniel Hagari hefur verið andlit Ísraelshers frá því að aðgerðir hófust í kjölfar árása Hamas 7. október sl. Getty/Amir Levy

Ísrael getur ekki sigrast á Hamas án þess að sjá til þess að ný stjórnvöld taki við á Gasa, segir talsmaður Ísraelshers. Ummæli hans í gær virðast benda til þess að upp sé kominn ágreiningur milli hersins og stjórnvalda um framhald átaka á Gasa.

„Að halda því fram að það sé hægt að tortíma Hamas, að láta Hamas hverfa, er að kasta sandi í augu almennings,“ sagði Daniel Hagari í viðtali í gær en stjórnvöld, og ekki síst forsætisráðherrann Benjamin Netanayhu, hafa ítrekað staðhæft að ekkert lát verði á aðgerðum fyrr en Hamas hefur verið eytt.

Hagari gaf í skyn að það kynni að taka langan tíma að finna eitthvað til að koma í staðinn fyrir Hamas en samtökin væru „hugmynd“ ekki síður en pólitísk hreyfing, sem hefði verið „ræktuð í hjörtum fólks“. 

Hann sagði framhaldið á forræði stjórnvalda og að herinn myndi fara að fyrirmælum þeirra.

Skrifstofa Netanyahu sendi frá sér yfirlýsingu í gær, í kjölfar ummæla Hagari, og ítrekaði að tortíming Hamas væri eitt af markmiðum aðgerða Ísraelsmanna á Gasa og að herinn stefndi að sjálfsögðu að því.

Forsætisráðherrann sætir síauknum þrýstingi, bæði heima fyrir og utan frá, um að leggja fram áætlun um framtíð Gasa þegar átökum lýkur. Varnarmálaráðherrann Yoav Gallant sagði til að mynda í síðasta mánuði að það yrði æ líklegra að annað af tvennu myndi gerast; að Hamas yrðu áfram við völd á Gasa eða að Ísraelar neyddust til að vera með fasta viðveru á svæðinu.

Samstarfsmenn Netanyahu í ríkisstjórn hafa sumir kallað eftir því að Palestínumenn verði flæmdir á brott og nýjar byggðir Ísraelsmanna reistar á svæðinu. Forsætisráðherrann hefur hins vegar hafnað þessum hugmyndum og sagði í gær að samstarfsflokkarnir þyrftu að taka sig taki; leggja annað til hliðar og einbeita sér að stríðinu við Hamas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×