Fótbolti

Ís­lensku liðin byrja á heima­velli og St. Mirren mætir á Hlíðar­enda

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valsmenn taka á móti skoska liðinu St. Mirren.
Valsmenn taka á móti skoska liðinu St. Mirren. Vísir/Diego

Íslensku liðin Valur, Breiðablik og Stjarnan fengu í dag að vita hvaða liðum þau munu mæta í annarri umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu ef liðin komast áfram úr fyrstu umferð.

Fyrir dráttinn var vitað hvaða liðum íslensku liðin gátu mætt. Valur gat til að mynda mætt FCK frá Danmörku, Go Ahead Eagles frá Hollandi eða St Mirren frá Skotlandi. Stjarnan gat mætt liðum á borð við Tromsø frá Noregi eða Víkingi frá Færeyjum og Breiðablik gat meðal annars mætt Drita frá Kósovó eða HB Tórshavn frá Færeyjum.

Fór það svo að lokum að Valur mun mæta skoska liðinu St. Mirren ef liðið hefur betur gegn KF Vllaznia frá Albaníu, Breiðablik mun mæta FC Drita frá Kósovó ef liðið slær út GFK Tikves frá Makedóníu og Stjarnan mun mæta Bala Town FC frá Wales eða Paide Linnameeskond frá Eistlandi ef liðið slær Linfield FC frá Norður-Írlandi úr leik.

Þá kom einnig upp úr hattinum að öll íslensku liðin spila fyrri leikinn á heimavelli komist þau í aðra umferð. Leikirnir verða spilaðir 25. júlí og 1. ágúst.

Að lokum kom einnig í ljós hvaða liði Víkingur Reykjavík mun mæta í annarri umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar ef liðinu mistekst að vinna Shamrock Rovers í forkeppni Meistaradeildarinnar. Fari það svo að Víkingur falli niður í forkeppni Sambandsdeildarinnar mætir liðið annað hvort FK Borac Banja Luka frá Bosníu eða KF Egnatia frá Albaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×