Golf

Tiger Woods fær lífstíðarpassa fyrir af­rek sín

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tiger Woods er einn sigursælasti kylfingur allra tíma.
Tiger Woods er einn sigursælasti kylfingur allra tíma. Alex Slitz/Getty Images

PGA-mótaröðin hefur ákveðið að veita Tiger Woods, einum besta kylfingi allra tíma, lífstíðarpassa á mörg af stærstu mótum mótaraðarinnar fyrir afrek sín á golfvellinum.

Á ferli sínum hefur hinn 48 ára gamli Woods unnið 82 mót á vegum PGA og þar af hefur hann fagnað sigri á 15 risamótum. Hann er sá kylfingur, ásamt Sam Snead, sem hefur unnið flest PGA-mót í sögunni og þá hefur hann unnið næst flesta risatitla af öllum, þremur færri en Jack Nicklaus vann á sínum tíma.

Í gær ákvað stjórn PGA að veita Woods lífstíðarpassa á átta stórum mótum á vegum mótaraðarinnar fyrir afrek sín í gegnum tíðina. Hann þarf þó enn að vinna sér inn þátttökurétt á risamótunum fjórum sem eru Masters-mótið, PGA meistaramótið, Opna bandaríska og Opna-meistaramótið.

Woods hefur nú hins vegar unnið sér inn lífstíðarpassa á svokallaða „Einkennisviðburði“ eða „Signature Events“ PGA-mótaraðarinnar, en það eru mótin sem gefa stig fyrir FedEx-bikarinn.

„Við munum gera sérstaka undanþágu til að viðurkenna Tiger Woods í sínum eigin flokki, en hann hefur náð þeim ótrúlega árangri að vinna yfir 80 mót á ferlinum,“ segir í tilkynningu PGA.

Woods hefur hins vegar ekki verið upp á sitt besta undanfarin ár. Hann lenti í bílslysi árið 2021 sem varð til þess að hann þurfti á aðgerð að halda vegna meiðsla sinna. Woods hefur aðeins tekið þátt í níu mótum síðan.

Á þeim fjórum PGA-mótum sem Woods hefur tekið þátt í á þessu ári hefur hann aðeins einu sinni komist í gegnum niðurskurðinn. Þó er búist við því að Woods verði meðal keppenda á Opna meistaramótinu í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×