Innlent

Hraunkælingin gengur vel og heldur á­fram í alla nótt

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Einar segir rjómann af slökkviliðsmönnum landins standa að aðgerðunum.
Einar segir rjómann af slökkviliðsmönnum landins standa að aðgerðunum. Vísir/Arnar

Slökkvilið Grindavíkur hóf fyrr í kvöld ásamt úrvalsliði viðbragðsaðila að dæla vatni yfir hraun sem hóf að teygja sig yfir varnargarðinn við Svartsengi. Um er að ræða fyrstu hraunkælingu af þessu tagi síðan í Heimaeyjargosinu.

Lagðar voru lagnir frá orkuverinu og á vettvang til að tryggja vatnsflæði en gríðarlegt magn vatns er þörf fyrir slíka aðgerð. Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík segir stöðuna vera góða og að þau verði að í alla nótt.

„Við erum að ýta mölinni upp í varnargarðinn og styrkja hann til þess að aftra því að hraunflæðið komi yfir vegginn. Við erum búnir að leggja lagnir frá orkuverinu í Svartsengi og alveg upp að vettvangi. Við erum að nota bíla frá Isavia til að sprauta á hraunið og mölina og reyna að halda þessu köldu,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Einar segir rjómann af slökkviliðsmönnum landsins koma að aðgerðinni og eru á vettvangi aðilar á vegum Isavia, slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, almannavarna, brunavarna Suðurnesja, björgunarsveitarinnar Þorbjarnar og svo að sjálfsögðu slökkviliðs Grindavíkur.

Hann segir hópinn vera með flestallar stærstu jarðýtur landsins á vettvangi og að vel hafi gengið hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×