Conceição hetja Portúgals

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmarkinu fagnað.
Sigurmarkinu fagnað. Boris Streubel/Getty Images

Portúgal marði Tékkland 2-1 þökk sé dramatísku sigurmarki Francisco Conceição í blálokin. Portúgal því komið með þrjú stig í F-riðli eins og Tyrkland.

Síðari leikur dagsins var ekki jafn fjörugur og sá fyrri en eftir markalausan fyrri hálfleik lifnaði yfir mannskapnum í þeim síðari. 

Lukáš Provod kom Tékklandi yfir á 62. mínútu með frábæru skoti eftir undirbúning Vladimír Coufal. Aðeins sjö mínútum síðar jafnaði Portúgal metin en það mark var heldur klaufalegt fyrir Tékkana. 

Jindřich Staněk, markvörður Tékklands, mokaði þá fyrirgjöf frá vinstri í fæturnar á Robin Hranáč og þaðan fór boltinn í netið. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún fram í uppbótartíma. 

Diogo Jota hélt vissulega að hann hefði komið Portúgal yfir þegar þrjár mínútur voru til loka venjulegs leiktíma en markið dæmt af vegna rangstöðu. Sigurmarkið kom hins vegar þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Það gerði varamaðurinn Francisco Conceição eftir vægast sagt ömurlegan varnarleik Tékklands. Þeim mistókst að hreinsa slaka fyrirgjöf frá vinstri og Conceição nýtti sér það. Hann hafði aðeins verið inn á vellinum í tvær mínútur.Hann fagnaði markinu með því að rífa sig úr að ofan og fékk gult spjald að launum.

Þegar fyrstu umferð í F-riðli er lokið eru Portúgal og Tyrkland með þrjú stig á meðan Tékkland og Georgía eru án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira