Fótbolti

Ís­lands­meistarar Víkings mæta írsku meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar fagna einu marka sinna í sumar.
Víkingar fagna einu marka sinna í sumar. Vísir/Diego

Íslandsmeistarar Víkings fengu að vita það í hádeginu hverjum þeir mæta í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Þeir mæta Shamrock Rovers frá Írlandi alveg eins og Blikar á sama tíma í fyrra.

Íslandsmeistararnir eru þarna að mæta liði sem varð írskur meistari í 21. skiptið á síðasta tímabili. Víkingur spilar fyrri leikinn á heimavelli en seinni leikurinn fer fram í Dublin.

Shamrock Rovers hefur unnið írska meistaratitilinn undanfarin fjögur ár. Liðið er þarna að mæta íslensku meisturunum annað árið í röð því Blikar slógu þá út út sömu umferð í fyrra.

Breiðablik vann báða leikina í fyrrasumar, fyrst 1-0 á Írlandi og svo 2-1 í seinni leiknum í Kópavoginum.

Víkingar vissu það fyrir dráttinn að þeir áttu möguleika á því að mæta einu af fimm liðum sem voru HJK Helsinki frá Finnlandi, FC Flora Tallin frá Eistlandi, KÍ Klaksvík frá Færeyjum, Shamrock Rovers frá Írlandi og FC RFS frá Lettlandi.

Leikirnir fram 9. eða 10. júlí fyrri leikur og svo seinni leikur 16. eða 17. júlí. Dregið verður síðan í aðra umferð forkeppninnar strax á morgun miðvikudag.

Þetta verður í fyrsta sinn síðan 2021 þar sem Íslandsmeistarnir þurfa ekki að fara í umspil um sæti í fyrstu umferðinni.

Þetta er í fimmta sinn sem Víkingar taka þátt í Evrópukeppni meistaraliða (1982, 1983, 1992, 2022 og 2024) og tíunda sumarið sem félagið tekur þátt í Evrópukeppni.

Víkingar duttu úr á móti Riga frá Lettlandi í fyrstu umferð i undankeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×