Fótbolti

Frammi­staðan en ekki nafnið kom Ronaldo í EM-hópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í síðasta undirbúningslandsleik Potúgala fyrir Evrópumótið.
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í síðasta undirbúningslandsleik Potúgala fyrir Evrópumótið. Getty/Pedro Loureiro

Cristiano Ronaldo hefur réttilega unnið sér sæti í portúgalska landsliðinu en hann hefur í kvöld leik á sínu sjötta Evrópumóti á ferlinum.

Landsliðsþjálfarinn Roberto Martinez var spurður á blaðamannafundi út í val sitt á hinum 39 ára gamla Ronaldo sem hefur spilað í Sádí-Arabíu síðustu ár.

Fernando Santos, forveri Martinez í starfinu, tók Ronaldo út úr byrjunarliðinu á heimsmeistaramótinu í Katar í desember 2022 og einhverjir héldu þá að landsliðsferlinum væri jafnvel lokið.

Ronaldo er hins vegar hvergi nærri hættur og hann skoraði fimmtíu mörk fyrir Al Nassr í öllum keppnum á síðasta tímabili.

„Cristiano er í landsliðinu af því að hann hefur unnið sér það inn. Það kemst enginn í portúgalska landsliðið út á nafnið eitt,“ sagði Roberto Martinez.

„Cristiano skoraði 50 mörk í 51 leik, var mjög stöðugur í leikjum sínum með félagsliðinu og skoraði níu mörk fyrir okkur í undankeppninni,“ sagði Martinez.

„Hann er markaskorari og fyrir okkur er hann maður sem getur bundið endahnútinn á sóknir okkar. Hann getur teygt á vörnum og opnað svæði fyrir liðsfélaga sína. Hann hefur breytt aðeins sínum leikstíl á síðustu árum. Ég segi það hreint út að það var frammistaðan en ekki nafnið sem kom Ronaldo í EM-hópinn. Tölfræðin hans sýnir það og sannar,“ sagði Martinez.

Ronaldo skoraði tvívegis í 3-0 sigri á Írlandi í síðasta undirbúningsleik Portúgala fyrir EM og hefur þar með skorað 130 mörk í 207 landsleikjum.

Portúgal spilar við Tékkland klukkan 19.00 í kvöld en það seinni leikur dagsins á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×