Fótbolti

UEFA gerir allt til þess að rúss­neski fáninn sjáist ekki í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússneski fáninn á ekki að sjást á leik Úkraínu og Rúmeníu í dag.
Rússneski fáninn á ekki að sjást á leik Úkraínu og Rúmeníu í dag. Getty/EMPICS Sport

Úkraínska landsliðið spilar í dag sinn fyrsta leik á Evrópumótinu í fótbolta en liðið mætir þá Rúmeníu í fyrsta leik dagsins sem er jafnframt fyrsti leikurinn í E-riðli.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ætlar að gera allt sem er í þeirra valdi til þess að rússneski fáninn sjáist ekki á leiknum í dag.

Rússneski fáninn hefur nefnilega sést í nokkrum af fyrstu leikjunum á Evrópumótinu. Það verður ekki í boði á leiknum á Allianz Arena í München.

Öryggisverðir á leikvanginum hafa fengið skýr fyrirmæli um að fjarlægja alla rússnesku fánanna sem þeir verða varir við á vellinum.

Rússneskum fótboltafélögum hefur verið bannað að taka þátt í mótum á vegum UEFA síðan Rússar réðust inn í Úkraínu. Það er þó ekkert bann í gildi fyrir rússneska ríkisborgara um að kaupa miða á leikina á EM.

Þýsk yfirvöld gáfu það út fyrir Evrópumótið að þau muni aðeins leyfa fána frá þeim þjóðum sem eru að taka þátt í þessu Evrópumóti. Það var leið þeirra til að koma í veg fyrir að fánar Ísraels og Palestínu yrðu á völlunum.

Það þýðir auðvitað líka að íslenski fáninn er bannaður. Hefði íslenska liðið komist í gegnum umspilsleikina á móti Úkraínu þá hefðu strákarnir okkar verið að spila þennan leik við Rúmena í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×