Erlent

Full­yrða að gíslar hafi fundist í haldi blaða­manns

Kjartan Kjartansson skrifar
Almog Meir Jan, einn gíslanna sem var frelsaður á laugardag, í fylgd ísraelskra hermanna. Hann er sagður einn þriggja gísla sem fundust á heimili blaðamanns.
Almog Meir Jan, einn gíslanna sem var frelsaður á laugardag, í fylgd ísraelskra hermanna. Hann er sagður einn þriggja gísla sem fundust á heimili blaðamanns. AP/Tomer Appelbaum

Ísraelsher heldur því fram að þrír gíslar sem voru frelsaðir úr haldi í hernaðaraðgerð á Gasa um helgina hafi verið í haldi blaðamanns sem starfaði fyrir katörsku sjónvarpsstöðina al-Jazeera. Fjölmiðillinn segir ásakanirnar stoðlausar.

Gíslarnir þrír voru teknir höndum í árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Nova-tónlistarhátíðina 7. október. Ísraelsher frelsaði þá og fjórða gíslinni í blóðugri hernaðaraðgerð í Nuseirat-flóttamannabúðunum á Gasa á laugardag.

Í yfirlýsingu sem Ísraelsher sendi frá sér var fullyrt að mennirnir þrír hafi verið í haldi Abdallah Aljamal og fjölskyldu hans. Aljamal þessi hefði verið útsendari Hamas og skrifað fyrir al-Jazeera sem ísraelsk stjórnvöld úthýstu í síðasta mánuði. CNN-fréttastöðin segir að herinn hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir fullyrðingu sinni.

Al-Jazeera segir fullyrðingar Ísraelshers algerlega stoðlausar. Þær séu liður í áframhaldandi atlögu ísraelskra stjórnvalda að heiðri og sjálfstæði fréttastöðvarinnar með rógburði og upplýsingafalsi. Aljamal hafi aldrei starfað fyrir stöðina en skoðunarpistill eftir hann hafi einu sinni birst á vefsíðu al-Jazeera árið 2019.

Aljamal starfaði í lausamennsku fyrir The Palestine Chronicle, bandaríska vefsíðu um Palestínu. Sá miðill segir að Aljamal hafi aðeins fjallað um mannúðarástandið á Gasa í fréttaskeytum sínum.

Aljamal, eiginkona hans og faðir eru sögð hafa verið felld í árás Ísraelshers. Yfirvöld á Gasa segja að 274 Palestínumann hafi fallið í árás Ísraela og tæplega sjö hundruð særst. Ísraelsher heldur því fram að mannfallið hafi verið umtalsvert minna.


Tengdar fréttir

Drápu 93 við að bjarga gíslunum fjórum

Ísraelski herinn frelsaði í dag fjóra gísla úr haldi Hamas í Nuseirat-borg á miðlægu Gasasvæðinu. Samhliða fótgönguliðsáhlaupinu voru gerðar umfangsmiklar loftárásir sem leiddu til dauða 93 Palestínumanna að sögn yfirvalda á svæðinu.

Fjórir gíslar frelsaðir á Gasa

Fjórum gíslum hefur verið bjargað lifandi á Gasasvæðinu. Um ræðir þrjá karlmenn og eina konu sem voru tekin í gíslingu á tónlistarhátíðinni Nova þegar Hamasliðar réðust inn í Ísrael sjöunda október á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×