Erlent

Benny Gantz hættur í þjóð­stjórn Netanjahús

Árni Sæberg skrifar
Benny Gantz er hættur í stjórn Netanjahús.
Benny Gantz er hættur í stjórn Netanjahús. Tasos Katopodis/Getty

Benny Gantz, ráðherra í stríðsráði Ísrael og fyrrverandi varnarmálaráðherra, hefur tilkynnt afsögn sína úr þjóðstjórn Benjamíns Netanjahús. Hann er leiðtogi Þjóðareiningarbandalagsins og pólitískur andstæðingur Netanjahús.

Þjóðareiningarbandalagið var eini miðjuflokkurinn í þjóðstjórninni, sem var mynduð skömmu eftir árásir Hamas þann 7. október og upphaf átakanna sem nú geisa fyrir botni Miðjarðarhafs.

Gaf Netanjahú frest til gærdagsins

Gantz hafði hótað því að segja sig úr þjóðstjórninni ef Netanjahú hefði ekki tilkynnt áætlun um enduruppbyggingu á Gasa að stríði loknu. Hann gaf forsætisráðherranum frest til 8. júní en samkvæmt frétt Reuters ákvað hann að fresta afsögninni um einn dag í ljósi björgunar gíslanna fjögurra í gær.

„Netanjahú kemur í veg fyrir að við færumst nær sönnum sigri í stríðinu. Þess vegna yfirgefum við þjóðsstjórnina í dag, með trega en af festu,“ sagði Gantz á blaðamannafundi síðdegis.

Ekki rétti tíminn til að hætta

Á blaðamannafundinum hvatti Gantz Netanjahú til þess að boða til kosninga. Stjórn Netanjahús fer enn með meirihluta á ísraelska þinginu, Knesset, 64 sæti af 120. Því er meirihluti hans ekki í hættu en hann mun nú þurfa að reiða sig enn meira á samstarfsflokkana, sem eru lengra til hægri á hinum pólitíska ás en Likud-flokkur hans.

Netanjahú hefur brugðist við afsögn Gantz á samfélagsmiðlinum X.

„Nú er ekki rétti tíminn til þess að yfirgefa bardagann, nú er tíminn til að snúa bökum saman,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Sam­komu­lag hefur náðst um þjóð­stjórn

Samkomulag hefur náðst milli Benjamíns Netanjahú forsætisráðherra og Benny Gantz, pólitísks andstæðings hans og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, um að stjórnmálabandalag hans Þjóðareiningarbandalagið gangi til liðs við ríkisstjórnina til að mynda þjóðstjórn.

Netanyahu fastur milli steins og sleggju

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, er nú sagður standa frammi fyrir því að þurfa mögulega að velja á milli þess að ganga að vopnahléstillögum sem nú liggja fyrir og þess að halda lífi í ríkisstjórn sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×