Innlent

Vonast til að opna Bláa lónið á næstu dögum

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Vinna hefur farið fram undanfarnar vikur og mánuði við varnargarða og vegi við Svartsengi, nálægt Bláa lóninu.
Vinna hefur farið fram undanfarnar vikur og mánuði við varnargarða og vegi við Svartsengi, nálægt Bláa lóninu. Vísir/Vilhelm

Bláa lónið verður lokað í dag og á morgun hið minnsta. Að sögn framkvæmdastjóra er vonast til þess að hægt verði að opna aftur í næstu viku. Skilyrði fyrir opnun eru að tvær flóttaleiðir frá staðnum séu færar. 

Eftir að hraunflæði úr eldgosinu við Sundhnúksgíga jókst skyndilega í gærmorgun var tekin ákvörðun um að opna ekki í lóninu. Gestum hótelsins auk starfsfólks var gert að yfirgefa svæðið. 

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu- markaðs og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins segir í samtali við fréttastofu að vonir standi til að hægt verði að opna á ný þegar líða fer á vikuna. 

„Við erum auðvitað í góðu samtali við sérfræðingana og yfirvöld og vinnum þétt og vel með þeim, við verðum bara að sjá til.“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu- markaðs og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins.Vísir/Arnar

Lónið sé vel varið

Hraun rann að og yfir Grindavíkurveg á ellefta tímanum í gær. Þar með lokaðist fyrir aðkomu að lóninu þaðan. Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu sagði í samtali við Vísi að hraunflæðið ógnaði þó ekki lóninu.

„Bláa lónið er innan varnagarða og vel farið. Þetta er ekkert að fara ná þangað. Þetta truflar umferð gesta í lónið fyrst og síðast.“

Helga segir að nú sé hægt að komast að lóninu í gegnum Hafnir með því að fara Nesveg og upp Norðurljósarveg.

„Það er verið að vinna í að merkja hann betur og annað til að geta notað hann sem aðalleið á meðan Grindavíkurvegur er lokaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×