Sport

„Þetta var af­leitt og það þarf að skóla nokkra leik­menn til“

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir leik
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir leik Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki sáttur eftir 4-0 tap gegn Val á útivelli. Kristján var ósáttur með vörn liðsins sem var í vandræðum með fyrirgjafir Vals.

„Þær breyttu færslunni út á kanti og unnu vel úr því. Mér fannst lítið breytast í seinni hálfleik en þegar mörkin koma þá fór markmiðið að fjarlægjast,“ sagði Kristján eftir leik.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Valur var marki yfir í hálfleik og Kristján var nokkuð sáttur með sitt lið eftir fyrri hálfleikinn.

„Í fyrri hálfleik var margt af því sem við lögðum upp með að ganga ágætlega. Það hefði þó margt mátt ganga betur. Það sem við ætluðum að gera var allt í lagi og það var allt í lagi í seinni hálfleik líka.“

„Við nutum þess að spila þennan leik og það var það skemmtilegasta við þetta.“

Öll mörk Vals komu eftir fyrirgjafir inn í teig sem leikmenn Stjörnunnar voru í miklum vandræðum með að eiga við og Kristján var ekki sáttur með það.

„Mér fannst við verjast mjög illa þessum fyrirgjöfum. Ég er búinn að skoða þetta og þetta var afleitt og það þarf að skóla nokkra leikmenn til.“

„Fyrst og fremst þarf að koma í veg fyrir fyrirgjafirnar og fótavinnan inn í teig og staðsetningin hjá leikmönnum var röng og þess vegna fengum við á okkur mörk,“ sagði Kristján að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×