Erlent

Drápu 93 við að bjarga gíslunum fjórum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sprengjum rigndi yfir borgina Nuseirat í aðdraganda björgunaraðgerðar Ísraelshers.
Sprengjum rigndi yfir borgina Nuseirat í aðdraganda björgunaraðgerðar Ísraelshers. AP/Jena Alshrafi

Ísraelski herinn frelsaði í dag fjóra gísla úr haldi Hamas í Nuseirat-borg á miðlægu Gasasvæðinu. Samhliða fótgönguliðsáhlaupinu voru gerðar umfangsmiklar loftárásir sem leiddu til dauða 93 Palestínumanna að sögn yfirvalda á svæðinu.

Guardian greinir frá því að sprengjum hafi ringt yfir markað í nágrenni við al-Awda-moskuna í Nuseirat í aðdraganda frelsunaraðgerðarinnar. Al-Aqsa-sjúkrahúsið er eina starfhæfa sjúkrahúsið í nágrenninu og það aðeins að hluta til. En það hafði ekki tök á að hlúa að svo mörgum særðum. Gefið var út neyðarboð og nágrannar beðnir um að gefa blóð við fyrsta tækifæri.

Mahmoud Abbas Palestínuforseti lýsti árásunum sem blóðbaði og hefur kallað eftir neyðarfundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Myndbönd eru í dreifingu á samfélagsmiðlum sýni fórnarlömb á víð og dreif um eyðilegar rústirnar, þeirra á meðal konur og börn.

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hrósaði sveitinni sem framkvæmdi björgunaraðgerðina upp í hástert og sagði þétt hafa verið setið um þá. Gagnskothríð og þétt borgarumhverfið hafi gert þeim erfitt fyrir. Hann kallaði aðgerðina eina mestu hetjudáð sem hann hefði orðið vitni að á sínum langa ferli í hernum. Að minnsta kosti einn ísraelskur hermaður lét lífið í átökunum.

Allir gíslarnir voru heilir á húfi og ómeiddir þegar þeim var bjargað úr haldi Hamas og hafa þau sameinast fjölskyldum sínum á nýjan leik í kjölfar læknisskoðunar á sjúkrahúsi í Tel Avív.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×