Innlent

Stolið af Grænum skátum fyrir tvær til þrjár milljónir á mánuði

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jón Ingvar segir mikilvægt að lögregla bregðist við.
Jón Ingvar segir mikilvægt að lögregla bregðist við. Grænir skátar

Tveimur til þremur milljónum króna hefur verið stolið frá Grænum skátum í formi dósa og flaska á söfnunarstöðum. Jón Ingvar Bragason, framkvæmdastjóri Grænna skáta, segir að staðfestur grunur sé um að ákveðinn aðili sé á bak við verknaðinn.

Grænir skátar eru með um tvöhundruð söfnunargáma á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Akureyri. Jón segir nokkur mál hafa verið tilkynnt og kærð til lögreglu en að viðbrögð hafi verið lítið sem engin.

„Það bara gerist ekkert. Þau taka málið og skrá kæruna og svo heyrum við ekki neitt,“ segir hann.

Tilkynningar bárust Grænum skátum frá almenningi og samstarfsaðilum um stuld. Þar að auki hafi verið hægt að sjá á skynjurum í gámunum að miklar breytingar hafi skyndilega orðið á magni.

„Gríðarlega mikilvægt er að fá almenning með okkur í lið og að öll þessi tilvik séu tilkynnt og kærð til Lögreglu,“ segir Jón.

Grænir skátar eru með um tvöhundruð söfnunargáma á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandi og Akureyri og rennur allur ágóði af starfsemi þeirra óskert til uppeldis- og félagsstarfs íslenskra skáta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×