Fótbolti

Púað á Walesverja eftir neyðar­legt jafn­tefli við eitt versta lands­lið heims

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lewis Koumas og félagar í velska landsliðinu skutu eintómum púðurskotum gegn Gíbraltar.
Lewis Koumas og félagar í velska landsliðinu skutu eintómum púðurskotum gegn Gíbraltar. getty/Fran Santiago

Wales gerði markalaust jafntefli við Gíbraltar í vináttulandsleik á Algarve í gær.

Þeir stuðningsmenn Wales sem gerðu sér ferð á leikinn púuðu á leikmenn liðsins eftir leikinn enda úrslitin verulega vandræðaleg fyrir Walesverja.

Gíbraltar er í 203. sæti styrkleikalista FIFA og hafði tapað síðustu þrettán leikjum sínum með markatölunni 50-0.

Rob Page, þjálfari Wales, kvaðst skilja stuðningsmennina sem púuðu á liðið eftir leikinn í gær.

„Þeir hafa rétt á sinni skoðun, algjörlega. Ég skil þá fullkomlega. Ég er stuðningsmaður Wales auk þess að vera þjálfari og er vonsvikinn. En ég verð tala áfram um heildarmyndina og verð líklega gagnrýndur fyrir það. Þetta snýst um heildarmyndina og við einbeitum okkur áfram að því sem við höfum gert,“ sagði Page.

Fimm leikmenn léku sinn fyrsta leik fyrir velska landsliðið í gær og þeir ellefu sem byrjuðu leikinn höfðu aðeins spilað 44 landsleiki samtals. Í seinni hálfleik setti Page leikmenn á borð við Daniel James, Brennan Johnson og Kieffer Moore inn á en ekkert gekk að brjóta klettharða vörn Gíbraltar á bak aftur.

Gíbraltar náði þarna í sitt fyrsta stig síðan liðið vann Andorra í vináttulandsleik í nóvember 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×