Körfubolti

Lakers vill fá tvö­faldan háskólameistara sem þjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dan Hurley klippir netið af körfunni eftir að Connecticut vann Purdue í úrslitaleik háskólaboltans.
Dan Hurley klippir netið af körfunni eftir að Connecticut vann Purdue í úrslitaleik háskólaboltans. getty/Mitchell Layton

Los Angeles Lakers freistar þess að fá Dan Hurley, þjálfara háskólameistara Connecticut, til að taka við þjálfun liðsins.

Körfuboltavéfréttin Adrian Wojnarowski greinir frá þessu í dag. Samkvæmt honum ætlar Lakers að bjóða honum góðan langtímasamning til að lokka hann frá Connecticut yfir í NBA.

Lakers hefur verið í þjálfaraleit síðan Darvin Haim var látinn taka pokann sinn eftir að liðið féll úr leik fyrir Denver Nuggets í 1. umferð úrslitakeppninnar. Ýmsir hafa verið orðaðir við þjálfarastarfið hjá Lakers en samkvæmt Wojnarowski hefur félagið haft augastað á Hurley allt frá því þjálfaraleitin hófst.

Hurley hefur gert Connecticut að háskólameisturum undanfarin tvö ár. Hann tók við liðinu 2018 en stýrði þar á undan Rhode Island um sex ára skeið. Þar áður þjálfaði Hurley St. Benedict's Prep menntaskólanum og Wagner háskólanum. 

LeBron James ku vera aðdáandi Hurleys sem er lykilatriði í því að hann fái starfið. Enn liggur ekki fyrir hvort LeBron snýr aftur til Lakers á næsta tímabili en það ræðst meðal annars af því hvaða lið velur son hans, Bronny, í nýliðavalinu í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×