Fótbolti

Kærir mót­herja sem kýldi sig í miðjum leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Yasmin Mrabet varð fyrir fólskulegri árás í vináttulandsleik.
Yasmin Mrabet varð fyrir fólskulegri árás í vináttulandsleik. Alex Grimm - FIFA/FIFA via Getty Images

Marokkóska knattspyrnukonan Yasmine Mrabet ætlar sér að leggja fram kæru á hendur annarrar knattspyrnukonu sem kýldi hana í miðjum vináttulandsleik í vikunni.

Marokkó og Kongó áttust við í vináttulandsleik síðastliðinn mánudag. Í það minnsta var yfirskrift leiksins sú að um vináttuleik væri að ræða, en svo virtist alls ekki vera þegar á völlinn var komið.

Marokkó vann leik liðanna 3-2 á mánudaginn, en í stöðunni 2-1 þegar rétt tæpur klukkutími var liðinn af leiknum, varð Mrabet hreinlega fyrir árás.

Leikmaður kongóska liðsins, Ruth Monique Kipoyi, braut þá harkalega af sér og fékk fyrir vikið að líta beint rautt spjald. Leikmenn marokkóska liðsins hópuðust að henni, en Kipoyi brást hin versta við og kýldi Mrabet til jarðar.

Mrabet hefur nú ákveðið að leita réttar síns og segir atvik sem þetta ekki eiga neitt skylt við fótbolta.

„Ég vil byrja á því að þakka öllum fyrir þau fallegu skilaboð sem ég hef fengið eftir leikinn,“ segir í yfirlýsingu Mrabet.

„Svona ofbeldishegðun á ekki að vera liðin. Ágreiningur getur komið upp í keppni og spennustigið getur verið hátt, en það eru ákveðnar línur sem á aldrei að stíga yfir.“

„Viðeigandi verklag til að tilkynna þetta mál er nú farið í gang og héðan í frá mun ég aðeins horfa fram veginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×