Fótbolti

Arnar Þór ráðinn íþróttastjóri Gent

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson stýrði íslenska karlalandsliðinu í 31 leik.
Arnar Þór Viðarsson stýrði íslenska karlalandsliðinu í 31 leik. EPA-EFE/Robert Ghement

Arnar Þór Viðarsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, hefur verið ráðinn sem nýr íþróttastjóri belgíska félagsins Gent.

Félagið greindi frá tíðindunum á heimasíðu sinni í morgun, en Arnar hefur undanfarið starfað sem þjálfari unglingaliðs Gent.

Raunar var ráðning Arnars ekki einu tíðindin sem félagið greindi frá í morgun. Gent greindi einnig frá því að félagið hafi ráðið nýjan þjálfara sem mun því koma til með að starfa náið með Arnari. Sá heitir Wouter Vrancken og var síðast þjálfari Genk, en hann tekur við af Hein Vanhaezebrouck.

Eins og áður segir var Arnar síðast þjálfari unglingaliðs Gent áður en hann var ráðinn sem íþróttastjóri félagsins. Þar áður var hann þjálfari karlalandsliðs Íslands, en hann hefur einnig starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ.

Arnar var landsliðsþjálfari Íslands frá því í desember 2020 þar til honum var sagt upp störfum í lok mars á síðasta ári. Íslenska landsliðið lék 31 leik undir hans stjórn og vann aðeins sex þeirra. Þrettán sinnum gerði liðið jafntefli og tólf sinnum þurfti liðið að sætta sig við tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×