Innlent

Baðst vægðar áður en lögreglunemi beitti piparúða og kylfu

Árni Sæberg skrifar
Í dóminum eru heiti hinna ýmsu skemmtistaða og verslana við Austurstræti talin upp.
Í dóminum eru heiti hinna ýmsu skemmtistaða og verslana við Austurstræti talin upp. Vísir/Vilhelm

Ungur lögreglunemi hefur verið dæmdur til þrjátíu daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi. Í dóminum er því lýst hvernig hann eltist við brotaþola um miðbæ Reykjavíkur áður en brotaþoli stöðvaði og baðst vægðar. Þá beitti lögregluneminn piparúða ítrekað á manninn.

Greint var frá niðurstöðu dómsins í morgun en nú hefur dómurinn verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í dóminum segir að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi þann 22. júní árið 2023 tilkynnt héraðssaksóknara, í samræmi við fyrirmæli Ríkissaksóknara, um hugsanlega refsiverða háttsemi lögreglunemans, sem starfandi lögreglumanns hjá embætti lögreglustjórans, sem lotið hafi að því hvort hann hefði farið offari við handtöku á sakborningi þann 27. maí 2023 í tilteknu máli.

Klæddi mann úr að ofan

Í dóminum er atvikum lýst svo að maður hafi gengið út af skemmtistaðnum Lúx við Austurstræti klukkan 04:21. Brotaþoli í málinu hafi komið út í kjölfarið ásamt nokkrum öðrum mönnum. Brotaþoli sé auðþekkjanlegur á myndskeiðum úr öryggismyndavélum, þar sem hann sé maður hávaxinn og nokkuð þrekinn. Þá hafi hann verið í einkennandi stuttermabol.

Samferðamenn brotaþola hafi þá augsýnilega borið kennsl á manninn sem fyrst gekk út af veitingastaðnum en þegar brotaþoli sá manninn hafi hann tekið á rás í áttina að honum.

„Brotaþoli veitist að manninum og grípur í föt hans og dregur fötin, jakka og skyrtu, yfir höfuð hans þannig að maðurinn stendur eftir ber að ofan. Hann heldur þó áfötum sínum og tekur á rás í austurátt eftir götunni en brotaþoli sparkar á eftir honum án þess að hitta hann.“

Önnur slagsmál brutust út á sama stað

Því er lýst hvernig samskipti mannanna voru á Austurstrætinu umrætt sinn. Svo virðist sem samferðamaður brotaþola hafi reynt að koma í veg fyrir handalögmál milli hans og áðurnefnds manns.

Þeir hafi farið aftur inn á Lúx á meðan maðurinn stóð hinum megin við götuna, við American Bar, og talaði í símann. Hann hafi síðan rölt að inngangi Lúx og enn talað í símann. Á þeirri stundu, klukkan 4:24, hafi nokkur hópur af fólki verið að koma út af veitingastaðnum, þar á meðal brotaþoli, en þegar maðurinn sá brotaþola hafi hann snúið sér frá, að því er virðist til að ganga yfir Austurstræti á ný.

„Samferðamaður brotaþola virðist lempa hann til að fara aftur inn á veitingastaðinn en brotaþoli staldrar við í dyragættinni, snýr sér við á þröskuldinum og bandar hendi, að því er virðist reiðilega, í átt að margnefndum manni.“

Á sömu stundu hafi brotist út átök milli tveggja manna sem höfðu skömmu áður gengið út af Lúx, fyrir utan verslunina Icewear. Ekki verði séð af upptökum að brotaþoli hafi tekið þátt í þeim átökum. Þó hafi komið fram í vitnisburði hans að hann þekkti til allra hlutaðeigandi.

Reyndi að stöðva félaga sinn

Samferðamaður brotaþola hafi þá gengið að manninum, sem brotaþola virðist augljóslega hafa verið uppsigað við, og átt við hann orðastað og í kjölfarið hafi maðurinn lagt af stað vestur Austurstræti.

Samferðamaður brotaþola hafi þá snúið sér að brotaþola þar sem hann hafi komið aðvífandi, í því skyni að hindra hann í að elta manninn. Samferðamaður brotaþola hafi nánast lent í handalögmálum við hann við þetta og einungis náð að hægja á honum.

Á þessu augnabliki hafi tvö lögreglumenn, þar á meðal þann ákærða, borið að garði. Þeir hafi undið sér í að stöðva átök hinna mannanna tveggja. Lögregluneminn hafi náð að grípa annan þeirra úr átökunum og sá hafi fallið í götuna.

Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi muni hann hafa beitt piparúðavopni gegn hinum manninum sem var í átökunum en ekki þeim sem hann var með í tökum. Lögregluneminn hafi verið með yfirhöndina í þeim atgangi en lent ásamt hinum handtekna í götunni mitt á milli brotaþola og mannsins sem hann virtist eiga vantalað við. Þá hafi búkmyndavél hans farið í gang.

Var svifaseinni en bráðin

Brotaþoli hafi á sama tíma verið á leið að manninum og nánast kominn að lögreglunemanum þar sem hann var með mann í tökum. Lögregluneminn hafi beint að brotaþola piparúðavopni og sagt endurtekið „bakkið frá“. Brotaþoli hafi fyrst snúið báðum lófum á móti lögreglunemanum og bent síðan yfir hann á manninn sem hann var að ganga að og sagt „I am going there“. Hann hafi svo tekið á sig krók framhjá lögreglunemanum og manninum sem hann var er með í tökum á götunni. Lögregluneminn hafi þá gengið frá piparúðavopninu og fundið til handjárn til að nýta við yfirstandandi handtöku.

Maðurinn sem brotaþoli var á leiðinni að hafi á sömu stundu hörfað undan honum upp á gangstéttina norðan götunnar og brotaþoli fylgt á eftir honum, þar sem hann hafi mætt lögreglukonu, sem hafi verið að koma aðvífandi á vettvang en henni hafði dvalist við að ganga frá lögreglubifreiðinni, sem hún og hinir tveir lögreglumennirnir voru á. 

Þegar lögreglukonan hafi verið komin framhjá hafi brotaþoli að því er virðist litið um öxl í áttina þangað sem lögreglan var að sinna handtökum og tekið svo á rás nokkur skref í áttina að manninum sem hann var að elta. 

Maðurinn hafi þá hlaupið af stað, fyrst örfá skref í átt að Veltusundi en síðan beygt snöggt í sveig yfir götuna á móts við veitingastaðinn Shalimar þar sem hann hafi runnið og dottið í götuna, án þess að brotaþoli væri þar nærri. 

Brotaþoli hafi á hinn bóginn elt hann en verið heldur svifaseinni og því verið kominn vestur fyrir manninn eftir fyrrnefnda snögga beygju, þannig að maðurinn væri á milli hans og lögreglunemans.Í þann mund sem maðurinn sprettur á fætur eftir fallið hafi brotaþoli nánast verið kominn að honum og sparkað í áttina að afturenda mannsins án þess að þess sæust merki á myndskeiðum að hann hafi hitt, í það minnsta hafi maðurinn skokkað nokkur skref og stansað svo á móts við Gyllta köttinn sunnan götunnar, fáa metra frá, án þess að kenna sér meins svo séð verði, og litið til baka. Brotaþoli hafi ekki elt hann en samferðarmaður brotaþola gengið til hans í áttina frá Lúx.

Skildi mann eftir í tökum dyravarðar

Á sama tíma og samferðamaður brotaþola var kominn að honum sjáist hvar lögreglumaðurinn hafi staðið upp og komið gangandi ákveðnum skrefum í áttina til brotaþola og tekið sér í hægri hönd piparúðavopnið sem hann gekk frá meðan hann sinnti handtökunni. 

Lögregluneminn hafi notið liðsinnis dyravarðar á Lúx við að færa hinn handtekna í handjárn en á meðan þeir voru að því hafi hann orðið var viðframangreindan atgang í brotaþola gagnvart manninum. Á upptöku búkmyndavélar ákærða sjáist handtök hans við að finna til handjárn og heyrist dyravörðurinn segja meðal annars, „farðu bara,ég tek þetta“. 

Lögregluneminn hafi þar með skilið fangann eftir í vörslum dyravarðarins, risið á fætur og snúið í vestur og gengið í átt að brotaþola klukkan 4:26. Lögregluneminn hafi ítrekað kallað „komdu“ og bandað piparúðavopninu í áttina að brotaþola, sem virðist í fyrstu svara með blótsyrði á ensku en tekið svo á rás vestur Austurstræti og yfir Ingólfstorg í suðurátt inn á Aðalstræti. 

Staðnæmdist á Aðalstræti

Rétt í þann mund sem lögregluneminn hafi verið að hlaupa af stað hafi hann virst fyrst líta yfir vinstri öxl þangað sem maðurinn sem brotaþoli átti í útistöðum við stóð og svo aftur fyrir sig til hægri þar sem lögreglukonan hafi sést taka viðbragð til að hlaupa af stað og þá hafi hann tekið á sprett á eftir brotaþola og kallað ítrekað á hann „stoppaðu“.

Lögreglukonan hafi hlaupið á eftir þeim en verið spölkorn á eftir. Brotaþoli hafi hlýtt fyrirmælum lögreglunemans um að stansa er hann var nánast kominn að gatnamótum Aðalstrætis og Kirkjustrætis og snúið við og gengið nokkur skref á móti lögreglunemanum, sem hafi komið hlaupandi á eftir honum og þeir mæst á móts við Aðalstræti 16. Á þessu augnabliki hafi um það bil ein mínúta verið liðin frá því að upptaka búkmyndavélar lögreglunemans hófst er hann hafði handtekinn mann í tökum fyrir utan Lúx.

„Don't spray me“

Lögregluneminn hafi beint piparúðavopninu sem hann var með í hendinni á hlaupunum strax að brotaþola og kallað tvisvar háum rómi á hann að leggjast á magann. Í sömu andrá hafi brotaþoli ítrekað sagt á ensku „don't spray me“, eða „ekki spreyja á mig“ og staðið kyrr og snúið hálfvegis frá lögreglunemanum.

Hann hafi skipað brotaþola þá að leggjast á jörðina á ensku um leið og hann úðar piparúða í andlit brotaþola, sem augljóslega hafi fengið úðann í augun og snúið sér undan og togað bol sinn upp til að þurrka sér um augun.

Þegar lögregluneminn sprautar piparúðanum í augu brotaþola hafi verið liðnar um það bil sex sekúndur frá því að brotaþoli stansaði og hóf að biðja hann að sprauta ekki á sig piparúðanum.

Sprautaði aftur á hann og í augu samstarfskonunnar

Brotaþoli hafi hálfhrökklast undan lögreglunemanum í áttina að porti við húsið að Aðalstræti 16. Þegar hann hafi verið að komast að gangstéttinni hafi hann snúið baki í ákærða og sett hendur fyrir aftan bak og sagt „arrest me“ og staðið kyrr. 

Þegar brotaþoli leit um öxl í áttina að lögreglunemanum hafi hann úðað piparúða á ný í andlit mannsins, sem hafi þá hrökklast áfram undan honum inn á lóðina við Aðalstræti 16 og talað háum rómi í auðheyranlegu uppnámi meðal annars á ensku um að lögregluneminn væri að úða í andlit hans og kvartað yfir því að sjá ekki neitt. Hann hafi hallað sér fram og haldið handleggjunum um læri sín og virst líða illa.

Þegar lögregluneminn beitti vopninu í þetta sinn hafi verið liðnar átta sekúndur frá því að hann beitti því fyrst.

Á meðan hann sprautaði í síðara skiptið hafi hann staðið áveðurs gagnvart lögreglukonunni, sem hafi fengið piparúðann í augun.

„Fyrir dómi lýsti lögreglumaðurinn því að þetta hefði verið mjög óþægilegt, hún hefði hálflamast í fyrstu auk þess sem hún hefði nánast ekki séð neitt af þeirri atburðarás sem í hönd fór er brotaþoli var handtekinn.“

Sprautaði aðeins meira og barði með kylfu á meðan hann var á fjórum

Í dóminum segir að eftir þetta virðist lögregluneminn hafi beitt piparúðavopninu ítrekað á brotaþola og skipað honum að leggjast í blauta götuna.

„Leggst þá brotaþoli fyrst á fjórar fætur með ensk blótsyrði á vörum um ákærða. Brotaþoli leggst svo alveg á magann og virðist mega álykta af viðbrögðum brotaþola að ákærði úði enn einu sinni í andlit hans.“

Lögreglukonan hafi þá komið hikandi þangað sem brotaþoli liggur en þegar hann verður var við hana hafi hann farið upp á fjóra fætur á ný og virst eitt andartak reyna fálmkennt að grípa í fótlegg lögreglunemans rétt ofan ökla. Lögreglukonan hafi ýtt honum hálfvegis niður á ný en án atbeina lögreglunemans, sem hefði staldrað við í sínum aðgerðum til að klæða sig í hanska. 

Lögregluneminn hafi svo tekið upp kylfu og dregið hana í sundur um leið og hafi haldið áfram að skipa brotaþola í sífellu að liggja á maganum og aðvarað hann í eitt sinn um að ef hann legðist ekki myndi hann nota kylfuna, „or I will use the bat“.

Lögregluneminn hafi svo rétt úr sér og sjáist á myndskeiðinu úr búkmyndavél hans hvar lögreglubifreið er að koma aðvífandi akandi eftir Suðurgötu. Í myndskeiði úr eftirlitsmyndavél, sem er utan á Aðalstræti 16, sjáist að hann virðist líta í áttina að lögreglubifreiðinni. Við svo búið hafi hann greitt brotaþola fjögur högg hvert á eftir öðru aftan til efst í vinstra lærið og vinstri síðuna.

Í þeirri andrá hafi lögreglumennina sem komu á bifreiðinni drifið að og þeir tekið yfir vettvanginn og handtekið brotaþola, sem hafi verið handjárnaður klukkan 4:32. Samkvæmt tímaskráningu búkmyndavélar lögreglunemans hafi liðið ein mínúta og fjörutíu sekúndur frá því að brotaþoli hlýddi fyrirmælum hans um að stansa þar til hann var settur í handjárn.

Missti alla stjórn á aðstæðum

Í niðurstöðukafla dómsins segir að þegar horft væri til málsatvika, að lögregluneminn hafi verið einn að eiga við einn drukkinn einstakling, sem oft hafi verið búið að úða piparúða á, sem lagstur hafi verið á fjórar fætur og hefði á engu tímamarki veitt raunverulega mótspyrnu gegn handtöku eða ógnað lögreglumönnum sem voru á vettvangi, yrði ekki séð að skilyrðum tilgreindar greinar reglugerðar um valdbeitingu hafi verið fullnægt. 

Í raun yrði ekki dregin önnur ályktun af framgöngu lögreglunemans á þessari stundu að hann hafi verið búinn að missa alla stjórn á aðstæðum og talið sig langt umfram tilefni vera knúinn til að beita brotaþola því harðræði sem hann gerði með ofnotkun á varnarúða, sparka í hann og með því að berja hann ítrekað með lögreglukylfunni. Raunar virðist fátið hafa verið orðið slíkt að lögregluneminn hafi að sögn ekki tekið eftir lögreglubíl sem hefði átt að blasa við honum koma akandi eftir Suðurgötunni áður en hann hóf að beita kylfunni. 

Leiki ekki vafi á að með þessari framgöngu hafi lögreglu brotið gegn áðurnefndri hátternisreglu reglugerðarinnar og þannig farið offari og brotið með því gegn grein almennra hegningarlaga sem snýr að brotum í opinberu starfi.

Samkvæmt framansögðu væri það þannig niðurstaða dómsins að lögregluneminn hafi með framgöngu sinni við handtöku brotaþola farið gróflega offari með þrennum hætti og þannig gerst brotlegur við ákvæði hegningarlaga um brot við handtöku og líkamsárás, samanber ákvæði um brot í opinberu starfi.

Sem áður segir var lögregluneminn ungi dæmdur til þrjátíu daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Þá var honum gert að greiða brotaþola 400 þúsund krónur í miskabætur og allan sakarkostnað málsins, 2,27 milljónir króna.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×