Körfubolti

Carmelo Anthony upp­fyllir drauma sína um að eiga körfuboltalið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Carmelo Anthony lék í NBA deildinni í fjölda ára og hefur gert það gott í viðskiptum utan vallar eftir að ferlinum lauk.
Carmelo Anthony lék í NBA deildinni í fjölda ára og hefur gert það gott í viðskiptum utan vallar eftir að ferlinum lauk. Patrick Smith/Getty Images

Carmelo Anthony hefur tryggt sér kauprétt á útþensluliði í úrvalsdeild Eyjaálfu í körfubolta.

National Basketball League, NBL, tilkynnti að Carmelo hafi tryggt sér kauprétt í gær. Samhliða eignarhaldi mun hann sinna erindrekastörfum fyrir deildina og áætlanir þeirra til að koma framtíðarstjörnum á kortið í gegnum Next Stars kynningaráætlunina.

NBL var stofnuð árið 1979, níu lið frá Ástralíu leika í deildinni og eitt frá Nýja-Sjálandi. Óvíst er að svo stöddu hvenær nýtt lið Carmelo Anthony mun koma inn í deildina, hvað það mun heita eða hvar það verður staðsett.

Carmelo telur þetta gott fyrsta skref, og lítur í raun á þetta sem stökkpall í átt að eignarhaldi á NBA liði. Eitthvað sem hann hefur dreymt um lengi. Þá segir hann sömuleiðis mikilvægt að kynna körfuboltann víðsvegar um heiminn og aðstoða framtíðarstjörnur leiksins að stíga sín fyrstu skref.

Next Stars er stór þáttur í því, en áætlunin gengur út á að gefa ungum leikmönnum tækifæri og koma þeim í NBA deildina. LaMelo Ball, leikmaður Charlotte Hornets, er meðal þeirra sem hafa komið í NBA deildina með þessum hætti.

Fjöldi nú- og fyrrverandi NBA leikmanna hafa fjárfest í NBL deildinni, þeirra á meðal eru Khris Middleton, Dante Exum, Zach Randolph, Shawn Marion, Kenny Smith og Luc Longley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×