Innlent

Lög­reglu­maður dæmdur fyrir brot í starfi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglumaðurinn spreyjaði piparúða ítrekað í andlit mannsins.
Lögreglumaðurinn spreyjaði piparúða ítrekað í andlit mannsins. Vísir/Vilhelm

Lögreglumaður hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi.

Frá þessu greinir RÚV. Dómurinn hefur ekki verið birtur en RÚV hefur hann undir höndum.

Atvik máls eru þau að lögreglumaðurinn hafði afskipti af erlendum karlmanni í maí í fyrra eftir að síðarnefndi átti í útistöðum fyrir utan skemmtistaðinn LUX í Austurstræti. Beitti lögreglumaðurinn ítrekað úðavopni gegn manninum, þrátt fyrir að maðurinn veitti enga mótspyrnu við handtöku.

Lögreglumaðurinn er auk þess sagður hafa sparkað í manninn og slegið hann fjórum sinnum með kylfu, á meðan maðurinn lá á fjórum fótum. Jós lögreglumaðurinn einnig fúkyrðum yfir manninn.

Samkvæmt frétt RÚV um málið neitaði lögreglumaðurinn sök en stuðst var við upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna og öryggismyndavélum. Á þeim sést maðurinn ítrekað biðjast vægðar.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að lögreglumaðurinn hefði farið offari, þannig að aðfarir hans flokkuðust undir líkamsárás. Ekkert benti til þess að honum hefði staðið ógn af manninum.

Honum var metið það til refsilækkunnar að hann væri ungur og óreyndur og hefði misst stjórn á sér í krefjandi aðstæðum. Var lögreglumanninum gert að greiða tvær milljónir í sakarkostnað og 400 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×