Fótbolti

Real Madríd stað­festir komu Mbappé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Genginn í raðir Real Madríd.
Genginn í raðir Real Madríd. Ralf Ibing/Getty Images

Franski framherjinn Kylian Mbappé hefur skrifað undir fimm ára samning við Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd. Félagið greindi frá þessu í dag.

Segja má að um verst geymda leyndarmál fótboltans sé að ræða. Um leið og það var staðfest að hinn 25 ára gamli Mbappé yrði ekki áfram á mála hjá París Saint-German var næsta öruggt að hann myndi ganga í raðir Real Madríd.

Mbappé var næstum búinn að semja við Real fyrir ári síðan en framlengdi á endanum í París til eins árs. Sá samningur rennur út þann 30. júní næstkomandi og nú hefur Real staðfest komu franska framherjans. Þar sem Mbappé er að verða samningslaus kemur hann á frjálsri sölu.

Yfirlýsing Real gæti varla verið litlausari en þar segir í tæpum tuttugu orðum eða svo að Mbappé sé að ganga í raðir félagsins og skrifi undir fimm ára samning.

Mbappé er 25 ára gamall framherji sem á að baki 77 A-landsleiki fyrir Frakkland og hefur skorað í þeim 46 mörk. Hann átti stóran þátt í því þegar Frakkland varð heimsmeistari árið 2018 í Rússlandi.

Hann hefur spilað fyrir Monaco og PSG á ferlinum. Þar hefur hann raðað inn mörkum en alls hefur hann skorað 288 mörk og gefið 126 stoðsendingar í 373 leikjum fyrir félögin tvö. Nú vonast forráðamenn Real til að Frakkinn haldi góðu gengi sínu áfram í Madríd.


Tengdar fréttir

Mbappe búinn að skrifa undir hjá Real Madrid

Verst geymda leyndarmál fótboltans er nú endanlega komið fram í dagsljósið. Kylian Mbappe hefur skrifað undir samning við spænska stórliðið Real Madrid. Evrópskir fjölmiðlar segja frá þessu.

Kylian Mbappé: Ég myndi elska að spila fyrir AC Milan

Verst geymda leyndarmál knattspyrnuheimsins er að Kylian Mbappé verði leikmaður spænska stórliðsins Real Madrid á næstu leiktíð. Hann var þó að tala um annað evrópskt stórlið í viðtölum við blaðamenn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×