Innlent

Skipuð í em­bætti fiski­stofu­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Elín Björg Ragnarsdóttir.
Elín Björg Ragnarsdóttir. Stjr

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað Elínu Björgu Ragnarsdóttur sem fiskistofustjóra frá 1. júní næstkomandi.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að Elín Björg hafi verið ráðin að fengnum tillögum ráðgefandi hæfnisnefndar. Embættið var auglýst laust til umsóknar í janúar síðastliðnum og er skipað í það til fimm ára.

Elín Björg lauk meistaragráðu (ML) í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2010 og B.S. gráðu í viðskiptalögfræði frá sama skóla árið 2008. Elín Björg er með diplóma í hafrétti frá Rhodes Academy of Oceans Law and Policy frá árinu 2022. Þá hefur Elín Björg lokið námi í fiskiðn og fisktækni frá Tækniskólanum ásamt ýmsum námskeiðum á sviði stjórnunar og reksturs fyrirtækja.

Elín Björg hefur starfað á Fiskistofu frá árinu 2016. Fyrst sem verkefnastjóri gæða- og þróunarmála en frá árinu 2020 sem sviðstjóri veiðieftirlitssviðs og er starfandi staðgengill fiskistofustjóra. Um sex mánaða skeið árið 2020 sinnti Elín Björg starfi sviðsstjóra friðlýsinga og starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun.

Áður sinnti Elín Björg lögfræði-, rekstrar- og gæðastjórnunarráðgjöf samhliða störfum sínum í ferðaþjónustu. Elín Björg var um tíma framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, gæðastjóri hjá Granda og framleiðslustjóri hjá Kjötumboðinu Goða hf.

Elín Björg hefur gegnt ýmsum nefndar- og stjórnunarstörfum og tekið þátt í starfshópum tengdum sjávarútvegi og fiskveiðistjórnun. Á árunum 2016 til 2023 var Elín formaður stjórnar Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×