Handbolti

Tveir Fær­eyingar til silfurliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Afturelding tapaði fyrir FH, 3-1, í úrslitum Olís-deildar karla.
Afturelding tapaði fyrir FH, 3-1, í úrslitum Olís-deildar karla. vísir/diego

Silfurlið síðasta tímabils í Olís-deild karla, Afturelding, hefur sami við tvo færeyska leikmenn. Þetta eru þeir Sveinur Ólafsson og Hallur Arason.

Sveinur er 21 árs miðjumaður og vinstri skytta. Hann kemur frá Færeyjameisturum H71. Hann átti afar gott tímabil með liðinu í vetur og var meðal annars valinn leikmaður ársins í Færeyjum.

Hallur er 25 ára hægri skytta sem kemur frá VÍF. Hann hefur verið valinn í færeyska landsliðið sem hefur verið í mikilli sókn undanfarin misseri.

Afturelding tapaði, 3-1, fyrir FH í úrslitum Olís-deildarinnar. Fjórði leikur liðanna fór fram á miðvikudaginn.

Eftir leikinn kvaðst Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, bjartsýnn fyrir framhaldið hjá liðinu.

„Við vorum í öðru sæti í meistaraflokki, Íslandsmeistarar í 3. flokki þannig ég er stoltur af félaginu og við erum að gera eitthvað rétt hérna í Mosfellsbænum. Auðvitað svíður þetta bara að hafa ekki nýtt síðustu leiki betur,“ sagði Gunnar.

„Það verða breytingar. Fáum inn fjóra nýja leikmenn og við erum hvergi nærri hættir. Við höfum stimplað okkur í toppbaráttuna, bikarmeistarar í fyrra og öðru sæti núna og sömuleiðis mjög efnilegir strákar að koma upp. Við verðum með topplið á næsta ári, það er 100%.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×