Innlent

Fyrir­skipar for­sætis­ráðu­neytinu að fara yfir ferla

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Ingi vill að farið verði yfir ákvarðanir lögreglu.
Guðmundur Ingi vill að farið verði yfir ákvarðanir lögreglu. Vísir/Vilhelm/Ívar Fannar

Félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur beðið ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins um að farið verði yfir verkferla og ákvarðanir lögreglu, þegar piparúða var beitt á mótmælendur fyrir utan ríkisstjórnarfund í morgun.

Margir ráku upp stór augu þegar greint var frá því að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði notað piparúða á mótmælum á vegum samtakanna Ísland-Palestínu í morgun. 

Um tíu mótmælendur voru sagðir illa haldnir en auk þeirra hafi lögreglumaður slasast þegar ráðherrabíl var ekið á hann. Lögregla sagði mótmælendur ekki hafa fylgt fyrirmælum.

Varaskeifan krefst skýringa

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, stýrði fundi ríkisstjórnarinnar í morgun í fjarveru Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Hann er í Svíþjóð, þar sem hann mun meðal annars funda með Selenskí Úkraínuforseta.

Guðmundur Ingi segir í færslu á Facebook að hann hafi í kjölfar fundarins beðið ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins um að farið verði yfir verkferla og ákvarðanir lögreglu á vettvangi í morgun, fyrir og á meðan á ríkisstjórnarfundi stóð og eftir að honum lauk.

„Sem leiddu til þess að valdi var beitt gagnvart borgurum sem nýttu lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla í tengslum við ríkisstjórnarfundinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×