Erlent

Heimilar notkun vopna frá Banda­ríkjunum á rúss­neska grund

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Joe Biden var reiður á blaðamannafundi í gær.
Joe Biden var reiður á blaðamannafundi í gær. AP/Evan Vucci

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur gefið Úkraínumönnum grænt ljós á notkun vopna frá Bandaríkjunum í árásum á Rússland. Heimildin er þó takmörkunum háð og nær aðeins til tilvika þar sem um sjálfsvörn er að ræða.

Samkvæmt yfirlýsingu hefur Biden veitt Úkraínumönnum leyfi til að nota vopn frá Bandaríkjunum til að verjast eða svara árásum á Kharkív. Á sama tíma var ítrekað að það væri afstaða Bandaríkjanna að langdræg vopn yrðu ekki notuð til árása á svæði innan Rússlands.

Þrátt fyrir að heimildin sé takmörkuð og nái aðeins til notkunar vopnanna í forvarnarskyni eða til að svara árásum Rússa er um að ræða veigamikla stefnubreytingu. Biden hefur hingað til sagt að leyfi til handa Úkraínu til að nota vopn frá Bandaríkjunum utan Úkraínu væri á skjön við stefnu forsetans um að gera allt til að forðast þriðju heimsstyrjöldina.

New York Times hefur eftir ónefndum embættismanni að þannig hafi Biden nú stigið yfir rauða línu sem hann sjálfur dró og um sé að ræða nýjan raunveruleika og mögulega kaflaskil í átökunum í Úkraínu. Búið væri að opna á nýja möguleika ef Rússar hæfu árásir á önnur héruð en Kharkív frá eigin landsvæði.

Ákvörðunin ku hafa verið tekin eftir að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Kænugarð á dögunum og sagði stefnu forsetans ógna Úkraínu. Rússar nýttu sér afstöðu hans til að gera árásir frá Rússlandi, vitandi að Úkraínumenn mættu ekki svara með vopnum frá Bandaríkjunum.

Rússar hafa ekki brugðist við ákvörðuninni, enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×